Vélsmiðja Steindórs ehf á Akureyri er 100 ára og eitt elsta starfandi málmiðnaðarfyrirtæki á Íslandi
Um aldamótin 1900 kom til Akureyrar ungur Skagfirðingur sem fýsti ekki að fara í búskap en hafði löngun til að læra iðn. Hugur hans stóð til að læra járnsmíði og hafði hann fengið pláss hjá Sigurði Sigurðssyni járnsmið. Hann hét Steindór Jóhannesson og var fæddur árið 1883 og ólst upp í Lýtingsstaðahreppi við lítil efni. Meðan hann nam iðn sína kynntist hann konuefni sínu en hún var úr Öxnadal og hét Sigurbjörg Sigurbjarnardóttir. Hann fýsti að læra meira enda bæði greindur og metnaðargjarn og var hann hvattur til að fara utan til frekara náms í iðninni. Hann sigldi til Danmerkur árið 1906 en það gekk ekki alveg þrautalaust því hann lenti í skipstrandi. Út komst hann og lærði vél- og rennismíði en vélvæðingin var að hefjast. Nóg yrði að gera á þeim vettvangi.
Þegar heim var komið fór hann að vinna við að setja niður nýjar tóvinnuvélar á Gefjun og vann hann við að þjónusta þær en þær voru gufuknúnar. Þegar farið var að huga að rafvæðingu Glerár þurfti vélakost í virkjunina og vann Steindór að uppsetningu búnaðarins ásamt fleirum. Síðla árs 1914 stofna þau hjónin járnsmíðaverkstæði og reisti hann verkstæðishús á Torfunefi. Verkefnin voru fjölbreytt s.s. skipaviðgerðir, gufuvélaviðgerðir og þjónusta við bændur. Vöxtur fyrirtækisins kallaði á stærri húsakost svo farið var að huga að nýrri lóð á sömu slóðum. En það var stefna bæjaryfirvalda að skipuleggja svæði fyrir matvælaiðnað á þessum stað svo Steindóri var bent á lóð niður á tanga. Hann byggði nýtt verkstæði á horni Strandgötu og Kaldbaksgötu um 1930 og var Vélsmiðjan þar til 1981.
Fyrirtækið sinnti nú bæði framleiðslu og viðgerðum og var Steindór vakandi fyrir nýjungum á sviði iðnarinnar. Eitt af þáverandi nýjungum var að galvanisera járn. Framleidd voru rúm fyrir sjúkrahúsið, ýmis landbúnaðartæki, heyskúffur, heygrindur, fagýtur á dráttarvélar, básar í fjós og fleira. Vélsmiðjan vann mikið að allskyns viðhaldsverkefnum fyrir Vegagerðina og voru þau bæði stór og smá. Steindór Jóhannesson lést árið 1951 en áður hafði Steindór sonur hans tekið við stjórn Vélsmiðjunnar.
Á árunum milli 1972-1980 var unnið við smíði á steypumótum og samhliða því varð mikil þjónusta við byggingariðnaðinn við hvers konar mannvirkjagerð bæði í bæjum og sveitum. Árin sem á eftir komu var mest unnið við smíði sem tengdist mannvirkjum hvers konar ásamt þjónustu við ýmsa verktaka sem og opinberar stofnanir, vörubílstjóra og bæjaryfirvöld. Sambandsverksmiðjur gengu gegnum miklar breytingar á þessum tíma og fluttust þær milli húsa, við það aðstoðaði Vélsmiðjan. Einnig var mikil uppbygging á iðnaðarhúsum hér í kring sem leiddi til þess að við smíðuðum mikið af stórum iðnaðarhurðum á áratugunum milli 1990-2000. Steindór Steindórsson lést árið 1977 og tók þá Sigurgeir sonur Steindórs við rekstrinum.
Árið 1979 var orðið ljóst að starfsemin krafðist stærri húsakosts því ný viðfangsefni kölluðu á mikið pláss s.s. allkyns burðarvirki, steypumót og fleira. og var þá byggt nýtt verkstæðishús í Glerárhverfi að Frostagötu 6A. Aðalhönnuður byggingarinnar var Arkitekta- og verkfræðistofa Hauks ásamt því að verkfræðideild Háskóla Íslands gerði tillögur að húsnæðinu.
Í flutningum Vélsmiðjunnar frá Kaldbaksgötu að Frostagötu var tekin sú ákvörðun að flytja ekki með neinar gamlar vélar og eldsmiðjuáhöld sem til voru á verkstæðinu. Einungis nýjustu tækin voru flutt í nýja húsnæðið. Fornmynjarnar dreifðust á ýmsa staði en mest fór þó til bræðranna á Ljósavatni í Suður-Þingeyjasýslu, þeirra Hreins og Björns ásamt því að Gestur Hjaltason fékk mest af eldsmíðaáhöldunum.
Á þessu tímabili á sér stað mikil uppbygging hjá Sæplasti á Dalvík þar sem vélsmiðjan kom bæði að mannvikjum og gerð móta fyrir þeirra framleiðslu sem sýndi okkur fram á það hversu mikilvægt það er að búa að góðum handverksmönnum og góðum tækjakosti. En á þessum tíma festum við kaup á öflugri kantpressu og saxi sem stórjuku okkar möguleika á að framkvæma verkefni í hverskonar stálsmíði bæði úr þykku og þunnu stáli. Þegar hér er komið við sögu er fagleg hæfni og tæknileg geta mikil, bæði við vinnslu úr hefðbundnu stáli og ryðfríu og til starfa eru komnir mjög hæfir starfsmenn. Við förum að takast á við enn fjölbreyttari viðfangsefni og má þar nefna lagningu hitaveitulagna úr rörum vítt og breytt um Ísland.
Á þessum áratug styrktist þjónusta okkar við útgerð og fiskvinnslu og ber þar hæst Útgerðafélag Akureyringa með tilheyrandi eignabreytingum til Brims og síðar Samherja sem staðið hefur allt til þessa dags þar sem samstarfið hefur verið afar farsælt.
Eftir aldamótin 2000 er reksturinn með hefðbundnu sniði og byggir eins og áður á tæknilegri getu manna og góðum tækjakosti þar sem fer saman mikið hugvit og gott handverk með mikilli fjölbreytni í verkum. Þar sem við þjónustum breiðan viðskiptamannahóp en skömmu eftir aldamót hefst uppbygging á aflþynnuverksmiðju Becromal hér í bæ með mjög miklum verkefnum fyrir málmiðnaðarmenn og var það okkar lán að verða þátttakendur í þeirri uppbyggingu sem staðið hefur allt til dagsins í dag.
Í áranna rás hafa viðfangsefnin í stálsmíði orðið fjölbreyttari og verkefni sem unnin eru af Vélmiðjunni eru um allt land. Má þar benda á girðingu við hús listakonunnar Elísabetar Geirmundsdóttur við Aðalstræti auk ýmissa verka í Lystigarðinum. Fyrir matvælaiðnaðinn eru unnin verkefni úr ryðfrýju stáli. Svona fjölbreytni í starfsemi kallar á viðamikla þekkingu í faginu hverju sinni og hefur verið lagt mikið upp úr góðri handverkskunnáttu og verkþekkingu.
Í rekstri fyrirtækisins eins og í þjóðfélaginu öllu var mikil breyting við svokallað bankahrun árið 2008. Þrátt fyrir mikla óvissu í verkefnum var ákveðið að gera engar breytingar í vinnu og starfsmannahaldi og sjá til hver framvindan yrði. Það kom á daginn að áföll smiðjunnar voru mjög lítil þar sem ekki var um neinar skuldsetningar að ræða fyrir hrun enda verður ekki annað séð eftir á að verkefni hafi hreinlega aukist í kjölfar hrunsins. Samkeppnisstaða málmiðnaðar batnaði og verkefni sem farið höfðu af landi brott komu aftur til baka með auknum tækifærum.
Tvö stór verkefni voru í gangi á árunum 2008-2009 sem verða minnisstæð en það er smíði brúar fyrir Reykjavíkurprófastdæmi og húsbygging úr gleri og stáli fyrir Guðmund Hervinsson hér í Vaðlareit austan Akureyrar. Þessi tvö verk ásamt vinnu fyrir Becromal og fjölmarga aðra viðskiptavini tryggðu okkur næg verkefni. Einnig má þess geta að þjónusta við Brauðgerð Kr. Jónssonar á ýmsum sviðum hefur staðið nær samfellt í 100 ár og er það lítið dæmi um þá viðskiptavild sem Vélsmiðjan hefur notið í tímans rás.
Það hefur legið fyrir um nokkurn tíma að enn þurfi að stækka Vélsmiðjuna og hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir stækkun á núverandi húsi. Má nú vænta þess að í þær framkvæmdir verði ráðist á næstu misserum ásamt áframhaldandi fjárfestingu á tækjakosti fyrirtækisins. Einnig má þess geta að starfandi eru í fyrirtækinu þriðji, fjórði og fimmti ættliðir frá stofnandanum Steindóri Jóhannessyni og er reiknað með að þau láti áfram til sín taka með því að Valur Guðbjörn, sonur Sigurgeirs, taki við sem aðstoðarframkvæmdastjóri samhliða því að starfa sem stálsmíðameistari hjá fyrirtækinu.