Styrkir eru greiddir um hver mánaðarmót og geta félagsmenn séð styrkina inni á félagavefnum þegar þeir skrá sig þar.
Styrktarbeiðnir þurfa að berast í síðasta lagi tveimur dögum fyrir mánaðarmót eigi félagsmaður að ná greiðslum inn á reikning sinn þann mánuðinn. Undantekning á þessu er í desember en þá þurfa styrktarbeiðnir að vera búnar að skila sér fyrir 30 desember.
Styrkir eru einungis greiddir fyrir hvert starfsár og þarf að skila inn fyrir hver áramót svo að þeir fáist greiddir.
Sé félagsmaður með nótu um styrk sem talinn er hér að neðan getur hann tekið mynd eða skannað hann inn og sent í tölvupósti á netfangið fma@fma.is eða komið með reikninginn á staðinn. Ef félagsmaður er ekki viss um hvort reikningur sem hann er með sé undir upptalningunni getur hann haft samband með tölvupóstsamskiptum í ofangreint netfang eða í síma 455-1050 og fær þá upplýsingar um það.
Sjúkrasjóður félagsins greiðir styrki til félagsmanna vegna eftirfarandi :
A) Sjúkradagpeninga þ.e. 80% af öllum launum að meðtöldum greiðslu frá almannatryggingum í allt að fjóra mánuði með möguleika á framlengingu að loknum samningsbundnum greiðslum frá vinnuveitenda.
B) Greiðir sjúkradagpeninga í allt að 90 daga til félagsmanns v/ veikinda maka og barna sé veikindarétti lokið hjá atvinnurekanda.
C) Greiðir útfararstyrk við andlát virks og greiðandi sjóðsfélaga. Hægt er að sækja um undanþágu til umsóknar fyrir aðra við sérstakar aðstæður til stjórnar sjúkrasjóðsins. Nánari upplýsingar fást hjá starfsmanni félagsins.
D) Líkamsrækt: Greitt er 50% af upphæð að hámarki kr. 30.000 á hverju 12 mánaða tímabili. Með líkamsrækt er m.a. átt við sund, reglulega þjálfun í viðurkenndri líkamsræktarstöð, hjá íþróttafélagi, golfklúbbi eða skíðafélagi o.fl. Stöðin/skólinn/félagið skal vera lögaðili með kennitölu, fast heimilisfang og fasta aðstöðu.
E) Endurhæfing: Félagið greiðir 40% af hlut félagsmanns í sjúkraþjálfun/iðjuþjálfun,sjúkranudd, og meðferðir hjá aðila sem hefur starfsleyfi frá landlækni s.s kírópraktor/hnykkjara endurhæfingu virks félagsmanns sem tryggingastofnun greiðir ekki og vísað er í af lækni. Hámarksstyrkur á ári er 75.000 krónur hjá fullvirkum félaga sem greitt hefur í sjúkrasjóð félagsins sl. 6.mánuði. Að öðru leiti greiðist styrkurinn eftir hlutföllum en að hámarki 80% af greiddum iðgjöldum til sjúkrasjóðsins.
F) Hjartavernd: Skoðun vegna forvarna eins og hjá hjartavernd er greidd að fullu eða allt að kr.30.000.- á starfsárinu.
G) Greiðir hluta af ferðakostnaði virks og greiðandi félagsmanns sem félagsmaður kann að verða fyrir vegna slyss eða sjúkdóms síns sjálfs og maka og barna undir 18 ára aldri enda greiði Tryggingastofnun eða aðrir aðilar ekki kostnaðinn. Greitt er fyrir 40 til 100 km. 5000.-kr. 100 til 250 km. 10.000.-kr. 250 til 400 km. 17.000.-kr. 400 km eða lengra 25.000.-kr. Hámark er greitt fyrir 10 ferðir á ári. Hámark er 25.000.- kr. eða 50% af reikningi, sé flogið miðast styrkurinn við framangreind hámark. Skila þarf inn staðfestingu frá lækni á viðkomandi stað.
H) Viðtalsmeðferð: Greiðir 40% af kostnaði virks og greiðandi félagsmanns fyrir tuttugu fyrstu skiptin vegna viðtals hjá sálfræðingi, félagsráðgjafa eða geðlækni/hjúkrunarfræðingi sem hefur starfsleyfi frá landlækni. Hámark er kr.9000.- fyrir hvert skipti.
I) Greiðir allt að kr. 40.000.- vegna gleraugnaglerja eða linsukaupa virks og greiðandi félagsmanns þó aldrei meira en 50% af kostnaði á þriggja ára fresti. Styrkurinn greiðist ekki vegna skemmda á gleraugum sem atvinnurekanda eða tryggingum ber að bæta.
Í) Greiðir allt að kr. 100.000.- v / laser-aðgerðar og eða augnsteinaskipta aðgerða virks og greiðandi félagsmanns þó aldrei meira en 40% af kostnaði. Þessi styrkur er veittur félagsmanni á þriggja ára fresti.
J) Greiðir einnig í augnskoðunum allt að 40% af reikningi en að hámarki þó 10.000.-kr.
K) Greiðir allt að kr. 100.000.- v / kaupa á heyrnartækjum virks og greiðandi félagsmanns þó aldrei meira en 40% af kostnaði á þriggja ára fresti. Styrkurinn greiðist ekki vegna skemmda á heyrnartækjum sem atvinnurekanda eða tryggingum ber að bæta.
L) Krabbameinsskoðanir. Sjúkrasjóðurinn greiðir 40% af eftirfarandi speglunum, ristilsspeglun, magaspeglun og nýrnaspeglun eða annari krabbameinsskoðun. Hámark styrks er 30.000.-kr. á hverju ári.
M) Styrkur vegna stoðtækja kr. 30.000 vegna stoðtækja s.s innleggja í skó, hækjur og annara stoðtækja sem leiða til að viðkomandi geti stundað vinnu sína. Styrkurinn nemur aldei hærri en 50% af útlögðum kostnaði félagsmanns. Styrkur þessi er veittur á hverju þriggja ára tímabili.
N) Sjúkrasjóðurinn greiðir vegna endurhæfingar í Hveragerði vegna virks og greiðandi félagsmanns einu sinni vegna sjúkdómsmeðferðar og vísað sé af lækni í meðferðina. Félagið greiðir allt að 40% af kostnaði en að hámarki 100.000 krónur. þetta á einnig við um dvöl á annari heilsustofnun viðurkenndri af sjúkratryggingum, ásamt greiðslu vegna kostnaðarsamra læknisaðgerða.
O) Vímuefnameðferð. Ef félagsmaður nýtyur ekki launa frá atvinnurekanda á viðkomandi rétt á dagpeningum skv. dagpeningareglu. Kostnaður vegna meðferðar er ekki greiddur.
P) Fæðingarstyrkur er veittur til virks og greiðandi félagsmanns með einu barni nema um fjölburafæðingu sé að ræða en framvísa þarf fæðingarvottorði og afriti af nýjum launaseðli þar sem fram kemur rétt starfshlutfall. Styrkurinn miðast við starfshlutfall foreldris og nemur hámarksstyrkur kr. 100.000 vegna barns. Við fjölburafæðingu hækkar styrkur um kr. 50.000.- Báðir foreldrar eiga rétt séu þeir aðilar að sjóðnum og uppfylla skilyrði um sjóðsaðild. Ef barn fæðist andvana eftir átján vikna meðgöngu er greitt 50% af styrk. Nemar eiga rétt á fæðingarstyrk ef þeir eru orðnir virkir og greiðandi félagsmenn en þeir þurfa að skila inn vottorði um námshlutfall. Hægt er að senda þessar upplýsingar inn á netfangið fma@fma.is Styrkurinn nær einnig til ættleiðinga þ.e.a.s. hafi hann ekki verið nýttur sakvæmt ofansögðu.
Q) Frjósemismeðferð. Styrkur er veittur vegna frjósemismeðferðar. Greitt er 40% af kostnaði og hámark styrks á ári er kr. 100.000.-. Styrkurinn er veittur allt að fjórum sinnum og miðast hámark við fullvirkan og greiðandi félagsmann eða nema.
Samkvæmt 9. grein laga félagsins tók stjórn félagsins þá ákvörðun á stjórnarfundi þann 1. október 2013 að til að vera fullgildur félagsmaður gagnvart styrkjum sjóðsins þurfi félagsmaður að greiða félagsgjald mánaðarlega í og að sá taxti sem miðað er við er taxti starfandi sveins eftir eitt ár starfandi í greininni, miðað við almenna kjarasamning Samiðnar. Taxti þessi uppfærist miðað við kjarasamninga og er uppfærður við hverja samninga. Lágmarks félagsgjald virks félaga er nú 5.362.- krónur í félagssjóð og með greiðslum í sjúkrasjóð að upphæð 5.362- krónur ásamt síðan 0,5% menntagjaldi af þeim launum eða 2.810.- krónur í endurmenntunarsjóð og 0,25% í orlofssjóð sem gerir upphæð 1.341.- krónur. Samtals í heild sinni nema greiðslur fullvirks félaga að lágmarki 14.875.- krónur. Greiði félagsmaður minna á hann einungis rétt á hlutfalli greiðslna sinna en þó að hámarki 80% af greiddu félagsgjaldi. Réttur til almennra styrkja hélst í þrjú ár eftir að viðkomandi hættir á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku, hafi viðkomandi verið virkur og greiðandi félagsmaður í sjö ár þar á undan. Annars eiga þeir rétt til styrkja í þrjá mánuði frá stafslokum.