Lög félagsins

1. kafli. Nafn félagsins og hlutverk

1. gr.

Félagið heitir Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, skammstafað FMA.
Félagssvæði þess er, Norðurland frá og með Húnaþingi vestra til og með Langanesbyggð.
Félagið er aðili að Samiðn sem er aðili að Alþýðusambandi Íslands.
Heimili félagsins og varnarþing er á Akureyri.

2. gr.

Tilgangur félagsins er:

a) Að sameina alla starfandi málmiðnaðarmenn sem vinna undir kjarasamningi félagsins.
b) Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt þeirra.
c) Að hafa nána og vinsamlega samvinnu við öll stéttarfélög innan ASÍ.
d) Að leita samvinnu og samstarfs við önnur hliðstæð félög á Norðurlöndunum,eftir því sem hagkvæmt þykir á hverjum tíma.
e) Að vinna að fræðslu- og menningarmálum eftir því sem aðstæður leyfa.

3. gr.

Rétt til inngöngu í félagið geta  þeir fengið sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

a) Vinna þau störf er 2. gr. a) liður greinir frá. Nánar tiltekið eru vélvirkjar, vélsmiðir, rennismiðir, ketil- og plötusmiðir, stálsmiðir (stálskipasmiðir, stálmannvirkjasmiðir), eldsmiðir, rafsuðumenn, málmsteypumenn, bifvélavirkjar, bílasmiðir, bílamálarar, blikksmiðir, pípulagningamenn,tæknifræðingar og iðnfræðingar í málm og bíltæknigreinum,vélstjórar svo og fullgildir nemar í málmiðnaðargreinum sem greiða félagsgjald og aðrir sem greiða ber af til félagsins skv. ákvæðum kjarasamning þess.
b) Eru fullra 16 ára að aldri.
c) Standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan ASÍ, sem viðkomandi hefur verið í.
d) Hafa lokið námsáföngum sem viðurkenndir eru af élaginu sem hluti iðnnáms.

4. gr.

Heimilt er að taka í félagið sem aukafélaga málmiðnaðarmenn sem rétt eiga til aðildar skv. 3.gr. en sem óska ekki fullgildrar aðildar skv. ákvæðum 5.gr. Aukafélagar þessir greiða félagsgjald,hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins en hafa ekki atkvæðisrétt né njóta kjörgengis. Heimilt er samninganefnd félagsins að veita þeim atkvæðisrétt um kjarasamninga. Auk þess njóta þeir sömu réttinda og fullgildir félagsmenn í sjóðum félagsins og njóta sömu þjónustu þess og réttinda á grundvelli kjarasamninga. Félagið skuldbindur sig til að líta á félagssvæði sitt sem sameiginlegt atvinnusvæði með öðrum aðildarfélögum Samiðnar og tryggja þar sem faglærðum félagsmönnum félagsmönnum aðildarfélaga Samiðnar gagnkvæman rétt til að starfa án tillits til búsetu, greiðan aðgang að þeim réttindum sem félagaðild veitir og aðra þjónustu sem sem félagið veitir. Undirstrikað skal að hér er um gagnkvæman rétt að ræða.

5. gr.

Sá sem óskar inngöngu í félagið skal senda skriflega inntökubeiðni til skrifstofu félagsins. Samþykki meirihluti stjórnarmanna inntökubeiðnina, er umsækjandi orðinn löglegur félagi. Felli stjórnarfundur hins vegar inntökubeiðni, hefur umsækjandi rétt til að vísa inntökubeiðni sinni til félagsfundar. Synji félagsfundur um inngöngu í félagið getur aðili skotið málinu til miðstjórnar Samiðnar og/eða ASÍ en úrskurður félagsfundar gildir þar til úrskurðað hefur verið um annað. Stjórn félagsins er þó heimilt að hafa annan hátt á eftir atvikum.

6. gr.

Félagsmanni er fjálst að ganga úr félaginu, enda sé hann skuldlaus við það þegar úrsögnin tekur gildi. Félagsmaður telst skuldlaus geti hann sýnt fram á að félagsgjöld hafi verið dregin af launum hans. Úrsögn á að vera skrifleg.  Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst, eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin og þar til vinnustöðvun hefur formlega verið aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmann í örðu félagi sem lagt hefur niður vinnu vegna deilu.

2. Kafli. Réttindi og skyldur félagsmanna, réttindamissir, brottrekstur

7. gr.

Með aðild öðlast félagsmaður:

a) Rétt til að vinna samkvæmt þeim kjörum sem samningar félagsins greina hverju sinni.    b) Rett til styrkja úr sjóðum félagsins samkvæmt reglugerðum þeirra.
c) Rétt til afnota af orlofshúsum félagsins samkvæmt reglugerðum þeirra.
d) Málfrelsi, atkvæðisrétt, kjörgengi og tillögurétt á fundum félagsins samkvæmt lögum þess og fundarsköpum. Um réttindi aukafélaga fer skv. 4.gr.
e) Réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda atvinnurekanda á samningum.                                                                                           

8. gr.

Skyldur félagsmanna eru:

a) Að hlýta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum.
b) Að greiða félagsgjöldin á réttum gjalddaga.
c) Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið. Þó getur starfandi stjórnarmaður, sem verið hefur 3 ár eða lengur í stjórn félagsins samfellt, skorast undan stjórnarstörfum í jafnlangan tíma.
d) Að stuðla aðþví að ófélagsbundnir menn gangi í félagið.
e) Að taka ekki upp störf sem stéttarfélög hafa langt niður vegna kjaradeilu.

9. gr.

a) Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi.
b) Félagsgjöld skulu innheimt sem ákveðin % af launum, en þó er heimilt að ákveða lágmarksgjald.
c) Hver sá félagsmaður sem skuldar lögboðin gjöld til félagsins fyrir 3 mánuði eða meira nýtur ekki fullra félagsréttinda, svo sem atkvæðisréttar, kjörgengis né styrkja úr sjóðum félagsins. Réttindi öðlast hann ekki á ný fyrr en skuldin er að fullu greidd eða hann getur sýnt fram á að dregið hafi verið af honum félagsgjald .
d) Eins árs skuld varðar útstrikun af félagaskrá. Félagsmenn sem eru sjúkir, falla af launaskrá eða stunda nám, greiða ekki félagsgjöld.

10. gr.

Öllum félagmönnum er skylt að hlíta lögum félagsins, samþykktum þess og samningum í hvívetna. Stjórn félagsins er heimilt að víkja hverjum þeim úr félaginu sem brýtur lög þess. reglur eða fundarsamþykktir sem fullgildum félag og tekur hann þá stöðu aukafélaga svo framarlega sem öll gjöld eru í skilum. Brottrekstur má hlutaðeigandi kæra til félagsfundar. Úrskurði félagsfundar má skjóta til miðstjórnar Samiðnar/ASÍ sem tekur ákvörðun.

3. Kafli. Stjórn og samninganefnd

11. gr.

Stjórn félagsins skipa sjö menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og þrír meðstjórnendur.

Varastjórn skipa fimm menn. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár, og skal hún kjörin í tvennu lagi.

Annað árið skal kjósa til sama tíma formann, ritara, tvo meðstjórnendur og þrjá varastjórnarmenn.

Hitt árið , ári seinna, varaformann, gjaldkera og einn meðstjórnenda og tvo varastjórnarmenn.                                                                                    

Þessi breyting var samþykkt á aðalfundi félagsins og samþykkt af miðstjórn ASÍ 2012 og gilti fyrst um kosningar félagsins 2013.

Hitt árið, ári seinna, varaformann, gjaldkera og einn meðstjórnenda og tvo varastjórnarmenn  til að tryggja að öll stjórnin sé ekki í kjöri á sama tíma.

12. gr.

Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda sbr. 17. gr. Hún ræður starfsmenn félagsins, ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eigum félagsins. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að því að allt er varðar sögu félagsins sé sem best varðveitt. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum, er hann gegnir fyrir félagið, er honum skylt að skila af sér öllum gögnum er trúnaðarstarf hans varðar.

13. gr.

Formaður félagsins boðar til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda stjórnarfund óski a.m.k. 2 stjórnarmenn eftir því. Formaður undirritar gerðarbækur félagsins og gætir þess að allir stjórnarmenn geri skyldu sína. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum. Varastjórnarmenn taka sæti í stjórn í forföllum aðalmanna. Varaformaður gegnir öllum störfum formanns í forföllum hans.

14. gr.

Ritari ber ábyrgð á að gerðarbækur félagsins séu haldnar og færðar íþær allar fundargerðir og lagabreytingar.

Hann undirritar gerðarbækur félagsins ásamt formanni. Heimilt er að hljóðrita fundi félagsins og skal ákvörðunþar um, kynnt í upphafi.

Rita má fundargerð í stafrænu formi. Sé það gert skal hún innbundin, prentuð út og undirrituð að formanni og ritar að loknu starfsári.

15. gr.

Gjaldkeri hefur á hendi eftirlit með fjárreiðu og innheimtu félagsins og bókfærslu, eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar.

16. gr.

Innan félagsins starfar samninganefnd sem í eiga sæti 12 menn. Stjórn og varastjórn hverju sinni skipa samninganefnd.

Samninganefnd kemur fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga. Samninganefnd hefur umboð til að setja fram kröfugerð og áætlun um skipulag viðræðna, taka þátt í samningaviðræðum og slíta þeim, óska milligöngu sáttasemjara og skrifa undir kjarasamninga, taka ákvörðun um atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun, fresta boðaðri vinnustöðvun og aflýsa vinnustöðvun og að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga eða sambanda umboð sitt til samningagerðar að hluta eða öllu leyti.

4. Kafli. Fundir og stjórnarkjör

17. gr.

a) Félagsfundir skulu haldnir þegar félagsstjórn álítur þess þörf eða minnst tíu prósenta fullgildra félagsmenn óska þess við stjórn félagsins skriflega og tilgreina fundarefni. Fundir skulu boðaðir með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara með auglýsingu eða bréflega. Þó má í sambandi við vinnudeilur og verkfallsboðanir boða fund með skemmri fyrirvara. Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Fundum félagsins skal stjórnað eftir fundarsköpum félagsins. Ágreiningsatriði um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði. Óski einstaka félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk.

b) Óheimilt er félagsmönnum að vinna yfir- og næturvinnu á fundartíma. Þó er formanni félagsins í samráði við trúnaðarmann á viðkomandi vinnustað heimilt að veita undanþágu ef þeir telja nauðsynlegt.

18. gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Aðalfundur skal boðaður með dagskrá með minnst sjö daga fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.

2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.

3. Kosningar stjórnar og varastjórnar, enda fari kosning ekki fram með allsherjar atkvæðagreiðslu.

4. Kosning tveggja skoðunarmanna og eins til vara.

5. Lagabreytingar, ef fyrir liggja.

6. Ákvörðun félagsgjalda.

7. Önnur mál.

19. gr.

a) Heimilt er að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu við kjör stjórnar og samninganefndar og skal um tilhögun hennar fara eftir reglugerð ASÍ þar að lútandi. Annars skal kjósa stjórn og varastjórn á aðalfundi. Kjósa skal sérstaklega formann, varaformann, ritara og gjaldkera, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

b) Tilkynna þarf til stjórnar skriflega ætli félagsmaður að bjóða sig fram á aðalfundi fyrir 15. janúar á hverju ári og til hvaða starfa hann hyggst bjóða sig til. Framboð félagsmanns skal miða við 11.gr. í þriðja kafla um stjórn og samninganefnd. Stjórn ber að senda út kynningu um þau framboð sem um ræðir þremur vikum fyrir aðalfund til félagsmanna ef um fleiri en eitt framboð sé að ræða. Annars gildir uppstilling stjórnar og skal setja hana á heimasíðuna undir fréttir, ásamt í fréttatilkynningu sem auglýst skal í um aðalfund í síðasta lagi sjö dögum fyrir aðalfund samanber 18.grein 4.kafli Fundir og stjórnarkjör. Uppstilling stjórnar skal lesin upp á aðalfundi og telst samþykkt án atkvæðagreiðslu hafi ekki komið fram tilkynning um framboð í tíma. Stjórnarmaður sem hyggst ekki bjóða sig fram á komandi kjörtímabili skal tilkynna það stjórn félagsins í síðasta lagi 15. desember og skal það koma fram á heimasíðu félagsins að viðkomandi stjórnarmaður/félagsmaður sé ekki í framboði á næsta aðalfundi. Stjórn finnur aðila ef ekki kemur framboð fram á tilsettum framboðstíma.

5. Kafli. Fjármál

20. gr.

Aðalfundur skal ákveða upphæð og greiðslumáta félagsgjalda. Reglulegtþing ASÍ ákveður þó lágmarksfélagsgjald verkalýðsfélaga hverju sinni, sbr. 41. gr. laga ASÍ.

21. gr.

Af tekjum félags skal greiða öll útgjöldþess, skatt til Samiðnar og ASÍ og annan kostnað, er stafar frá samþykktum félagsfunda eða stjórnar. Við meiriháttar ráðstafanir á eigum félagsinsþarf samþykki félagsfundar.

22. gr.

Tveir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá. Skoðunarmenn eru kosnir á aðalfundi. Auk hinna félagskjörnu skoðunarmanna er stjórn félagsins skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikningsárs.

23. gr.

Sjóðir félagsins skulu vera:

Félagssjóður, Styrktarsjóður, Slysa- og sjúkrasjóður og Orlofssjóður svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að verða. Allir sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð, samþykkta á aðalfundi. Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skulu vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.

Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í ríkisskuldabréfum, í ríkistryggðum skuldabréfum, í bönkum, í sparisjóðum og skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign, á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan sbr. 11.gr. viðmiðunarreglna um bókhald og ársreikninga stéttarfélaga og landssambanda eins og þær eru á hverjum tíma sbr. 41.gr. laga ASÍ.

Tekjur félagsins skiptast milli sjóðanna samkvæmt ákvæðum í reglugerðumþeirra.

6. Kafli. Lagabreytingar

24. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði. Til þess að breyting nái fram að ganga, verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða fullgildra fundarmanna.

Breytingar á lögunum koma fyrst til framkvæmda er stjórnir Samiðnar og ASÍ hafa staðfest þær. Tillögu um lagabreytingar frá einstökum félagsmönnum skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. janúar ár hvert.

Við úrsögn úr Alþýðusambandi Íslands eða samtökum sem eru aðilar að sambandinu skal fara að lögum A.S.Í.

7. Kafli. Félagsslit.

25. gr.

Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu.

Verði samþykkt að leggja félagið niður, skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað stéttarfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Fær það félag þá umráð eignanna, að áskildu samþykki miðstjórnar ASÍ.

Um sameiningu félaga skal fjallað á sama hátt og lagabreytingar.

Þannig samþykkt á aðalfundi Félags málmiðnaðarmanna Akureyri 23. febrúar 2002.

Þannig staðfest af A.S.Í. 6. mars 2002.

Fundarsköp

Félags málmiðnaðarmanna Akureyri

1. gr.

Formaður eða í forföllum hans varaformaður setur fundi. Í fundarbyrjun skal hann tilnefna þau mál sem á dagskrá fundarins eru, síðan skal hann stjórna kjöri fundarstjóra. Vilji fundarstjóri taka þátt í umræðum fundarins, frekar en fundarstjórn hans krefst, skal hann víkja úr sæti fundarstjóra og formaður eða annar úr stjórn félagsins taka við fundarstjórn á meðan.

2. gr.

Fundargerðir hvers fundar verða settar inn á heimasíðu félagsins innan fimm virkra daga eftir fund og eftir að stjórn félagsins hefur samþykkt hana. Félagsmenn geta gert athugasemdir við fundargerðina við starfsmann félagsins og kemur hann athugasemdum viðkomandi til stjórnar félagsins og samþykki stjórnin athugasemdina er hún sett inn í fundargerðina. Félagsmenn hafa hálfan mánuð til að gera athugasemdir við fundargerðir eftir að þær hafa verið birtar á netinu. Fundargerðir þarf því ekki að lesa upp á félagsfundum. Fundargerðir skulu ritaðar í fundargerðarbók og undirritaðar af ritar og formanni félagsins.

3. gr.

Inntaka nýrra meðlima, ef einhverjir eru til staðar, ber að framkvæma á undan dagskrármálum.

4. gr.

Fundarstjóri skal gefa mönnum kost á að taka til máls íþeirri röð semþeir biðja um orðið. Ræðumaður skal standa meðan hann flytur mál sitt. Skal hann halda sig við það mál sem til umræðu er og varast ósæmilegt orðbragð.

5. gr.

Ekki má, nema með leyfi fundarstjóra, lesa upp skrifað né prentað mál, annað en nefndarálit eða tillögur er snerta það mál sem til umræðu er.

Fundarstjóri skal lýsa tillögum í þeirri röð er þær berast.

Dragist umræður úr hófi fram getur hvaða fundarmaður sem er borið fram tillögu um takmarkaðan ræðutíma.

6. gr.

Allar tillögur skulu bornar fram skriflega. Tillaga skal vera undirrituð af flutningsmanni eða -mönnum ef fleiri en einn flytja tillöguna. Sé beðið um að skipta sundur tillögu sker fundarstjóri úr um hvort gjört skuli, en það er því aðeins heimilt að haldist geti ljósar og sjálfstæðar tillögur.

Heimilt er að bera fram dagskrártillögu. Sé það gert skal hún vera rökstudd. Dagskrártillögu er ekki leyfilegt að ræða.

Tillögur skulu bornar fram í þeirri röð er þær berast. Breytingartillögu við breytingartillögu skal ekki taka til greina.

7. gr.

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála, nema fundarsköp eða lög félagsins ákveði annað.

8. gr.

Kosning í nefndir eða aðrar trúnaðarstöður skal fara fram skriflega. Sé stungið upp á jafnmörgum og eiga að vera í nefnd lýsir fundarstjóri þá kjörna. Séu fleiri tilnefndir skal kjósa á milli þeirra sem í kjöri eru og hljóta þeir kosningu sem flest atkvæði hafa. Sá sem flest atkvæði fær við nefndarkjör skal kalla nefndina saman. Sé nefnd sjálfkjörin eða atkvæði jöfn ræður stafrófsröð. Nefndir kjósa sér formann og framsögumann.

9. gr.

Hljóti tveir eða fleiri menn jöfn atkvæði þegar kosið er til trúnaðarstarfa skal kjósa aftur milli þeirra. Fái þeir þá enn jöfn atkvæði ræður hlutkesti. Allar kosningar eru bundnar nema annað sé tekið fram í lögum félagsins.

10. gr.

Atkvæðaseðill er ógildur ef nöfn fleiri eða færri manna eru á honum en kjósa skal.

11. gr.

Atkvæðagreiðslur skulu fara fram með handaruppréttingu eða leynilega, óski einhver þess, nema annað sé ákveðið í lögum félagsins.

12. gr.

Óski einn eða fleiri fundarmenn leynilegra kosninga eða atkvæðagreiðslu skulu þær fara fram skriflega.

13. gr.

Ekki er hægt að neita fundarmanni sérstakrar bókunar óski hann þess.

14. gr.

Rísi deila á félagsfundi um skilning á fundarsköpum, úrskurðar fundarstjóri.

15. gr.

Fundarsköpumþessum má breyta á hvaða lögmætum félagsfundi sem er, ef breytingin hefur áður verið rædd á lögmætum fundi. Fundur sá, sem ákveður breytingu fundarskapa, ákveður hvenær hún gengur í gildi.

Reglugerð Styrktarsjóðs

Félags málmiðnaðarmanna Akureyri

1. gr.

Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri.

2. gr.

Markmið sjóðsins eru:

a) að styrkja félagsmenn Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, t.d. í verkföllum og verkbönnum, eftir því sem hagur sjóðsins er á hverjum tíma.
b) Styrkja félagsmenn sem hafa búið við langvarandi atvinnuleysi og njóta ekki atvinnuleysisbóta. Greiða skal 60% af dagvinnulaunum viðkomandi í 2 vikur á hverju tímabili (á ári). Greiðslur samkvæmt b-lið geta numið allt að 50% af vaxtatekjum sjóðsins á ári.
c) Að stykja félagmenn til tölvunáms, tungumálanáms, meistarnáms, meirprófs bílstjóra, þungavinnuvélaprófs og annarra námskeiða sem eflir þá sem málmiðanaðarmenn. Upptalning þessi er ekki tæmandi heldur leiðbeinandi. Stjórn félagsins sem er jafnframt stjórn sjóðsins getur tekið til umfjöllunar og afgreiðslu óskir félagsmanna um frekari styrkveitingar en að framan greinir. Samþykki stjórnin slíka beiðni ákveður hún einnig styrkupphæðina, enda geri hún rökstudda grein fyrir ákvörðun sinni á næsta aðalfundi félagsins.
d) Námskeið sem styrkt eru af sjóðnum skulu efla félagsmennina sem málmiðnaðarmenn.
e) Heimilt er stjórn sjóðsins að kaupa og selja húsnæði eftir því sem þurfa þykir.

3. gr.

Tekjur sjóðsins eru:

a) Vaxtatekjur.
b) Aðrar tekjur samkvæmt ákvörðun aðalfundar.

4. gr.

Rétt til styrktar úr sjóðnum hefur hver löglegur félagsmaður. Ennfremur má með samþykki lögmæts félagsfundar veita styrki til einstakra verkalýðsfélaga, ef þau eru í verkfalli eða verkbanni og nauðsyn virðist að hjálpa þeim.

5. gr.

Nú stendur yfir verkfall eða verkbann, skal þá félagsstjórn koma sér saman um hve háar greiðslur úr sjóðnum skulu vera í hverju tilviki og hvenær þær skulu hefjast. Tillögu sína skal stjórnin leggja fyrir félagsfund til samþykktar áður en greiðslur hefjast.

6. gr.

Félagsstjórn ber ábyrgð á sjóðnum og sér um að hann sé ávaxtaður eins og hagkvæmast er á hverjum tíma.

Endurskoðun reikninga sjóðsins annast endurskoðendur félagsins og skal legga endurskoðaða reikninga sjóðsins fyrir hvern aðalfund.

7. gr.

Reglugerð þessari má aðeins breyta á lögmætum aðalfundi. Reglugerðarbreyting er því aðeins gild að hún sé samþykkt af 2/3 greiddra atkvæða.

Þannig samþykkt á aðalfundi 23. febrúar 2013.