Saga félagsins

Sunnudaginn 23. febrúar árið 1941 komu járniðnaðarmenn saman til þess að stofna formlega Sveinafélag járniðnaðarmanna á Akureyri. Fyrsta stjórnin var kosin, lögð voru fram drög að lögum félagsins og einnig kjarasamningur sem samninganefndin hafði gert við vinnuveitendur. Önnur grein laganna var svohljóðandi: „Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að sameina alla starfandi járniðnaðarmenn á Akureyri innan sinna vébanda, er með öflugu samstarfi berjist fyrir því sem verða má til hagsbóta, svosem aukinni þekkingu á iðninni, hækkun kaupgjalds, styttingu vinnutíma, auknum réttindum og bættum vinnuskilyrðum.“ 
Forsaga félagsins nær þó aftur til síðari hluta ársins 1940. „Um og fyrir áramótin 1940-41 höfðu staðið yfir allmiklar deilur og samningar milli ýmissa iðn- og verkalýðsfélaga annars vegar og atvinnurekenda og iðnrekenda hins vegar. Deilur þessar stöfuðu af því að launþegarnir voru óánægðir með að hin ört vaxandi dýrtíð var ekki bætt um nema að nokkru leyti, og þótti þeim að sem aðstaða sín hefði versnað frá því sem var“, segir í fyrstu fundargerðinni sem Albert Sölvason, ritari félagsins skrifaði. Með honum í fyrstu stjórn voru Steingrímur Sigurðsson formaður og Eggert Stefánsson gjaldkeri en 10 járniðnaðramenn voru stofnfélagar.

Blaktandi strá rís upp

Fljótlega gengu þeir úr félaginu sem gerðust iðnrekendur en nýir menn komu í staðinn. Fimm árum síðar var félagið „blaktandi félagsskapur“ eins og Karl Magnússon orðaði það. Hann brýndi menn til dáða og skömmu síðar gengu fyrstu bifvélavirkjarnir, sex að tölu, inn í félagið. Árið eftir stóð félagið fyrir gerð kjarasamnings, hóf þátttöku í Iðnráði, stofnaði verfallssjóð og gekk í Alþýðusamband Íslands. Árið 1947 gerðist félagið aðili að Alþýðusambandi Norðurlands. Fyrsta vinnustöðvun félagsins var árið 1949 og stóðst félagið þá þolraun með prýði. Sveinafélag járniðnaðarmanna á Akureyri gerðist aðili að Málm- og skipasmíðasambandi Íslands árið 1964 og aðili að Samiðn frá stofnun 8. maí 1993. 
Íslenskt atvinnulíf þurfti að þola gífurlegan samdrátt á árunum 1967-1969. Margir félagar í Sveinafélaga járniðnaðarmanna fóru þá til Svíþjóðar í atvinnuleit en flestir þeirra sneru síðar til baka, þá ríkari í tvennum skilningi. 
Félagið hefur ávallt látið atvinnumál félagsmanna til sín taka og hefur meira að segja nokkrum sinnum ályktað um nauðsyn þess að reist yrði stóriðja, 600-700 manna vinnustaður við Eyjafjörð, til að skjóta traustari rótum undir atvinnulíf á svæðinu. Málmiðnaðarmenn á svæðinu hafa margir hverjir búið við mikið óöryggi í atvinnumálum eftir að skipaiðnaðurinn í landinu hrundi. Hið ótrygga atvinnuástand hefur meðal annars haft það í för með sér að endurnýjun í málmiðnaðarmannstéttinni á svæðinu er allt of lítil.

Átak í menntamálum og samdráttur

Uppúr 1960 var settur upp forskóli í járniðnaðarstörfum við Iðnskólann á Akureyri með aðstoð félagsmanna. Árangur af starfi skólans skilaði sér í aukinni menntun járniðnaðarmanna. Frá stofnun Verkmenntaskólans á Akureyri hafa verðandi málmiðnaðarmenn sótt þangað kennslu. Málmiðnaðargreinarnar eru tuttugu talsins og þar er gullsmíði talin með. Aðstaða í skólanum þykir góð en tæki voru meðal annars gefin af fyrirtækjum og stéttarfélögum á Akureyri. Árið 1987 var stofnað fræðsluráð málmiðnaðarins sem Félag málmiðnaðarmanna var aðili að. Fræðsluráðið fékk síðar heitið Fræðslumiðstöð málmiðnaðarins á vordögum 2003. Allt frá upphafi hefur félag málmiðnaðarmanna verið mjög virkur þátttakandi í uppbyggingu fræðslumiðstöðvarinnar og þangað hafa margir sótt endurmenntun. Félag málmiðnaðarmanna steig enn eitt framfaraskrefið á þessum vettvangi árið 2000 þegar það fjárfesti í eigin kennsluhúsnæði á Akureyri með aðstoð nokkurra aðila. Sú ákvörðun hefur reynst mikil lyftistöng í endurmenntunarmálum félagsmanna.

Félagslífið

Framan af stóð félagið fyrir þorrablótum og árshátíðum en svo fór að kostnaður var einfaldlega of mikill og aðsókn minnkaði. Félagið eignaðist hlut í orlofshúsi með öðrum félögum í MSÍ að Illugastöðum. Síðan keypti það eigið hús á sama stað og bætti við þriðja húsinu árið 1980 að Selgili en það hefur verið selt. Einnig á félagið íbúð í Ljósheimum í Reykjavík sem mikið er notuð allt árið um kring.

Rætist úr húsnæðismálum

Öll félög þurfa að hafa hús fyrir starfsemi sína. Fyrsta fasta aðsetur Sveinafélags járniðnaðarmanna var að Strandgötu 7 og flutti þaðan að Glerárgötu 32. Félagið komst í eigið húsnæði að Brekkugötu 4 þegar það keypti húsið með tveimur öðrum stéttarfélögum. Árið 1984 flutti félagið ásamt öðrum stéttarfélögum á Akureyri í nýtt húsnæði sem félögin byggðu að Skipagötu 14, kallað Alþýðuhúsið. 
Eftir því sem árin liðu jókst umfang og þjónusta félagsins líkt og hjá öllum öðrum stéttarfélögum. Fyrsti starfsmaðurinn sem ráðinn var til félagsins var Halldór Arason, þáverandi formaður. Hann hóf störf 1971 og vann í fyrstu aðeins tvo daga í viku. Starfsemi félagsins vatt upp á sig og fimm árum síðar var formaður félagsins, Hákon Hákonarson, ráðinn starfsmaður þess ásamt því að sinna öðrum störfum. Félaginu óx fiskur um hrygg þegar félagssvæði þess stækkaði og Dalvíkingar og Ólafsfirðingar urðu hluti af því. Þann 1. janúar 1981 fékk félagið nafnið Félag málmiðnaðarmanna Akureyri. Hákon Hákonarson er formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri. Hann metur stöðu félagsins þannig:

„Félagið hefur kappkostað að veita sínum félagsmönnum stuðning á sem flestum sviðum og vera virkur aðili í öllum þeim atriðum sem snúa að kaupum og kjörum félagsmanna og hafði m.a. forgöngu um samstarf annarra stéttarfélaga á Akureyri um gerð sérstaks kjarasamnings við Slippstöðina hf. á Akureyri árið 1987. Sá kjarasamningur hafði nokkra sérstöðu og hafði víðtæk áhrif á kjör annarra iðnaðarmanna á landinu. Nauðsynlegt er að stéttarfélögin séu vettvangur sem félagsmenn geti treyst að vaki yfir þeirra hagsmunum og að þau fylgist vel með þeim öru þjóðfélagsbreytingum sem ganga yfir samfélagið, annað hvort ein og sér eða í nánu samstarfi við önnur félög eða sambönd. 
Stéttarfélögin verða að standa undir þessum væntingum og stjórnvöld og atvinnurekendur þurfa að vera þess vel meðvitaðir að Íslandi verður aldrei stjórnað í andstöðu við launafólk og samtök þess.“