Stjórn Félags málmiðnaðarmanna Akureyri óskar félagsmönnum sínum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári

Ágætu félagsmenn. Síðustu kjarasamningar fólu í sér tiltölulega hógværar launahækkanir, breytingar á yfirvinnugreiðslum og styttingu vinnutíma. Næsta launahækkun sem nemur 18.000 krónum kemur til framkvæmda 1. apríl 2020 og að henni lokinni þá koma einnig til framkvæmda breytingar á tímaskrift, þannig að dagvinna fer úr 40 stundum niður í 37 stundir og kaffitímar sem teknir eru lúta sömu lögmálum og hádegismatartímar, það er, þeir verða ekki taldir til greidds tíma. Við þessar breytingar hækka laun um ríflega 8%.

Þá er hverjum vinnustað falið að skoða sérstaklega hvort hægt sé að koma á hagræðingu á vinnustaðnum og fá við það einn aukatíma í vinnutímastyttingu á viku þannig að greiddar verði 37 stundir en unnar stundir í dagvinnu verði 36. Félagið mun við fyrsta tækifæri í byrjun árs koma með frekari leiðbeiningar um framkvæmd þessara breytinga en við höfum beðið eftir því að iðnfélögin samræmi sýna vinnu gagnvart stærri vinnustöðunum á Reykjavíkur svæðinu.

 Samkvæmt Hagsjá Landsbankans hefur kaupmáttur launa hækkað um 1,2% síðastliðna 12 mánuði og vextir fara lækkandi. Því má áætla að markmið lífskjarasamningsins sé enn á réttu róli. 

Frá því að samningar voru undirritaðir hefur verið unnið að gerð annarra samninga, svo sem við Landsvirkjun, Norðurorku sem og aðrar stofnanir samasem sveitarfélög og ríki. Þeir eru að miklu leyti gerðir eftir sömu forskrift og aðalkjarasamningurinn. Félögum iðnaðarmanna, eins og öðrum samtökum vinnandi fólks í landinu, gefst því kærkomið svigrúm til að beina kröftum sínum að öðrum sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna. Í okkar tilviki snýr sú vinna meðal annars að því að ganga úr skugga um að ekki sé gengið á lagalegan og samningsbundinn rétt iðnaðarmanna, stuðla að bættri verkmenntun í landinu og bæta iðnlöggjöfina. 

Eitt af yfirlýstum forgangsmálum nýs framkvæmdastjóra Samiðnarframkvæmdastjóra Samiðnar, Elmars Hallgríms Hallgrímssonar, er að standa vörð um menntun iðnaðarmanna og efla tengslin við háskólasamfélagið. Hann hefur líka talað um að stuðla að aukinni samvinnu iðnfélaganna en undir þau orð tekur Félag málmiðnaðarmanna Akureyri heils hugar. Stór skref hafa þegar verið stigin í þá átt; svo sem með sameiginlegu vinnustaðaeftirliti hér á Akureyri og í Reykjavík. Einnig hafa iðnfélögin í Reykjavík aukið samstarfið meira en þau eru í dag öll utan VM í sameiginlegu húsnæði að Stórhöfða 31, til stendur að VM komi í húnæði við hliðina og með því eykst hagræðing og samvinna allra iðnfélaganna til muna að mati formanns FMA. 

Trúnaðarmenn félagsins munu verða boðaðir á fund á komandi ári til að fara yfir með þeim þá vinnu sem er framundan í samfélaginu um vinnutímastyttingu á hverjum stað fyrir sig. 

Iðnfélögin vinna nú að því að skoða þróun iðnréttinda og hvernig tryggja megi þau réttindi til frambúðar og hafa krafist þess að fá aðkomu að frumvarpi og breytingu laga hjá Alþingi á innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins. Eitt af markmiðum á endurskoðun löggjafarinnar ætti að vera að gera iðnmenntun hærra undir höfði og tryggja þannig fagmennsku í þágu öryggis og neytendaverndar. 

Loks er ánægjulegt að segja frá því að nýju íbúðirnar í Reykjavík hafa vakið mikla ánægju á meðal félagsmanna. Félagið seldi sameiginlegt orlofshús í Ölfusborgum, en Grafía sameinaðist Ravís og flækjustigið of mikið til að halda þeirri eign í sameign.

Framkvæmdastjóraskipti urðu í Samiðn. Þorbjörn Guðmundsson sem verið hafði framkvæmdastjóri Samiðnar um langt skeið lét af störfum 1. nóvember síðastliðinn. Við því starfi tók Elmar Hallgríms Hallgrímsson. Undirritaður vill þakka Þorbirni fyrir góða samvinnu um langt árabil og býður Elmar velkominn til starfa.

 Með félagskveðju 

Jóhann Rúnar Sigurðsson

Formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri