Samningar undirritaðir á föstudaginn 17.maí um viðbyggingu og breytingar á húsnæði VMA

Félag málmiðnaðarmanna Akureyri fagnar þessum degi. Samkvæmt samningi sem var undirritaður á föstudaginn 17.maí þá verður byggð um 1500 fermetra nýbygging við VMA fyrir verknámsbrautir skólans og þar með verður bætt úr löngu aðkallandi húsnæðisþörf. Ríkið greiðir 60% byggingarkostnaðar og sveitarfélögin við Eyjafjörð 40%. Þessi viðbygging er eitthvað sem við hjá FMA höfum lengi beðið og kallað eftir. 

 

 

 

                                                                                                                    Samningurinn var undirritaður í Gryfjunni í VMA af Ásmundi Einari Daðasyni mennta- og barnamálaráðherra, Sigríði Huld Jónsdóttur skólameistara, Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra á Akureyri, Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar, Snorra Finnlaugssyni sveitarstjóra  Hörgársveitar, Finni Yngva Kristinssyni sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar, Þórunni Sif Harðardóttur sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps og Þresti Friðfinnssyni sveitarstjóra Grýtubakkahrepps. Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri í Fjallabyggð var fjarverandi.

Í þessa viðbyggingu, sem mun rísa norðan núverandi skólahúss, við norðvesturhorn þess, færist nám í húsasmíði og bifvélavirkjun. Við það rýmkast um aðrar verknámsbrautir skólans og er ekki vanþörf á því margar námsbrautir hafa lengi búið við afar þröngan kost í húsnæðismálum. Í framhaldi af nýbyggingunni er gert ráð fyrir að nám á rafiðnbraut færist í núverandi húsnæði byggingadeildar, aðstaða námsbrautar í hársnyrtiiðn verður bætt sem og matvælabrautar og vélstjórnar, auk ýmissa annarra hrókeringa í núverandi húsnæði.

Að lokinni undirskrift samningsins í dag liggur fyrir að ráðast í hönnun nýbyggingarinnar og breytinga á núverandi húsnæði og jafnframt verður sett upp tímaáætlun framkvæmda.

Hér má sjá tölvugerðar myndir af frumhönnun viðbyggingarinnar. Tekið skal fram að þetta er ekki endanleg hönnun en gefur hugmynd um fyrirhugaða staðsetningu byggingarinnar og stærð hennar í samanburði við núverandi byggingar skólans.