Freydísi fékk gullmerki félagsins afhent.

Nú á dögunum afhenti formaður félagsins fyrstu konunni sem gekk í Félag málmiðnaðarmanna Akureyri gullmerki félagsins.

Freydís Halldórsdóttir átti ekki heimangengt á aðalfund félagsins sem haldinn var í mars í ár, en stjórn félagsins ákvað að einróma um að veita henni gullmerki félagsins á aðalfundinum. Sem fyrr segir er Freydís fyrsta konan sem gekk í Félag málmiðnaðarmanna Akureyri en hún leit við á skrifstofu félagsins nú á dögunum.
Freydís starfaði í mörg ár innan félagsins, sat í stjórn og sat Iðnþing og fleiri fundi á vegum félagsins. Það er ekki síður að með námi sínu og frumkvæði tók hún þátt í að brjóta niður þá múra sem um störf iðnaðarmanna/kvenna hafa verið sem og að brjóta niður kynjaójafnvægi sem iðngreinarnar hafa þurft að berjast við en hefur verið á undanhaldi síðan og fjöldi kvenna nú í iðnstörfum. Störfum sem henta báðum kynjum mætavel.

Við höfum hér umfjöllun sem birtist í afmælisblaði félagsins með og þökkum Freydísi enn og aftur fyrir hennar störf í þágu okkar og greinarinnar í heild sinni.

Freydís Halldórsdóttir varð fyrst kvenna hér á landi til að hefja nám í blikksmíði en hún lauk sveinsprófi árið 1984. Hún varð meistari tveimur árum seinna og tók svo „diplóma“ árið 2000, „bara til öryggis til að tryggja meistararéttindin mín, af því að þá var búið að breyta lögunum,“ eins og hún orðar það sjálf. Hún er enn í dag eina konan með meistararéttindi í blikksmíði og mjög fáar konur hafa lagt fyrir sig nám í þessari iðngrein. Freydís var líka fyrsta konan sem gekk í Félag málmiðnaðarmanna Akureyri (FMA) og sagði sjálf í blaðaviðtali á sínum tíma að það hefði verið eins og að eignast allt í einu 100 bræður. Freydís segist ekkert hafa hugsað út í það þegar hún hóf nám í blikksmíði árið 1979, að hún væri að „mölva kynjamúra“ eins og það er gjarnan orðað í dag. „Oddur bróðir er tveimur árum eldri og var nemi í blikksmíði. Hann vann í Vélsmiðjunni Odda en ég í búð og langaði að fara í nám. Oddur spurði mig þá hvers vegna ég skellti mér ekki bara í blikksmíðina eins og hann.

“ Tóku niður öll veggspjöldin" Eftir að hafa hugsað málið og tekið ákvörðun, fór Freydís á fund Jóhannesar Kristjánssonar í Odda og bar upp erindið. Hann tók henni mjög vel, sagði að aldrei fyrr hefði kona leitað eftir vinnu í smiðjunni hjá sér og að henni væri velkomið að skoða sig um. Ef henni líkaði vinnustaðurinn mætti hún byrja strax á morgun! Freydísi er minnisstætt að á öllum skápum og víða á veggjum voru plakköt af allsnöktum konum, eins og títt var á karla vinnustöðum á þessum árum. „Karlarnir tóku mér mjög vel og þeim til hróss get ég sagt að daginn eftir, þegar ég mætti til vinnu og náms, var hvert einasta veggspjald horfið og ég sá þau aldrei aftur.“ Hún segir að þær hafi bara verið tvær konurnar í iðnnámi á þessum árum, þ.e. í þeim greinum sem karlar höfðu einokað frá upphafi. „Það var ég í blikksmíðinni og Elín Gísladóttir í trésmíði. Svo voru auðvitað konur í hárgreiðslunámi en við hittum þær mjög sjaldan, því við vorum á öðrum stað í skólanum og á öðrum tíma.“ „Ég hló bara að þessu“ Að loknu sveinsprófi 1984 hóf Freydís störf hjá blikksmíðadeild Járnsmiðjunnar Varma, sem Karl Magnússon stjórnaði. „Kalli kom að sveinsprófinu mínu sem dómari og bauð mér vinnu í kjölfarið. Ég fékk meistaragráðu 1986 og sama ár keyptu Kalli og Oddur bróðir blikksmíðadeildina af Varma og stofnuðu Blikkrás. Þar starfaði ég allt til ársins 2002 þegar við fluttum suður,“ segir hún.

Freydís slasaðist á fæti árið 1989 og átti erfitt með að vinna í tröppum og stigum eftir það. „Þá færði ég mig yfir í verkstjórn og fór minna út í bæ eftir það. Henni er minnisstætt atvik frá árinu 1992. Þá var hún kasólétt, gengin 8 mánuði með yngri dóttur sína, Oddrúnu Össu en þá eldri, Hjördísi Elmu, átti hún árið 1982, í miðju námi. „Það kom maður inn í Blikkrás, snéri sér að mér og spurði um verkstjórann. Ég sagði honum að það væri ég. Hann horfði um stund á óléttukúluna mína, hnussaði og gekk svo á dyr. Þetta var í eina skiptið sem ég varð fyrir kynjafordómum í starfi en ég hló bara að þessu og vorkenndi manninum,“ segir Freydís brosandi. Upplifði sig alltaf sem jafningja Freydís byrjaði snemma að færa bókhaldið fyrir Blikkrás og fann að það átti mjög vel við sig. Oddur Helgi, bróðir hennar og eigandi fyrirtækisins, hefur oft sagt að hann skilji ekki hvernig hann fór að því að reka fyrirtækið áður en systir hans tók við verkstjórninni og svo bókhaldinu líka. Freydís, dæturnar tvær og eiginmaðurinn Jóhann Skírnisson flugstjóri, fluttu til Reykjavíkur árið 2002 og það ár lauk Freydís námi frá HR sem Viðurkenndur bókari. Hún stofnaði fyrirtækið Fagbók strax að loknu námi ásamt bekkjarfélaga sínum en hefur átt og starfrækt það ein frá árinu 2004. „Ég sá um bókhaldið fyrir Blikkrás alveg þangað til COVID skall á 2020 og hef haldið góðum tengslum við fyrirtækið og gömlu vinnufélagana alla tíð. Þetta eru yndislegir karlar, allir sem einn, bæði þeir sem ég vann með í Odda, Varma og Blikkrás og ekki síður í Félagi málmiðnaðarmanna Akureyri. Þeir báru mig á örmum sér allir sem einn, hjálpuðu mér ef ég var ekki alveg klár á einhverju og létu mig aldrei finna til einhvers vanmáttar af því að ég væri kona í heimi karlmanna. Ég upplifði mig alltaf sem jafningja þeirra.“

Hér má sjá greinina í heild sinni og myndir henni tengdri. https://www.fma.is/static/files/frettabref/afmaelisblad.pdf