Húsa­leiga sligar VMA: „Skólinn er ekki rekstrar­hæfur“

Í Kjarnanum birtist í gær aðsend grein eftir framhaldsskólakennarann Unnar Þór Bachmann. Hann gerir fjallar þar um húsaleigugreiðslur framhaldsskóla á Íslandi. Fram kemur að ríkið hafi hækkað leigu Verkmenntaskólans á Akureyri um 157% á einu bretti. „Það er erfitt að átta sig á því af hverju húsaleiga (markaðsleiga) Menntaskólans á Akureyri fer úr 111 milljónum árið 2018 í 189 milljónir (70%) árið 2019 en húsaleiga Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) úr 150 milljónum í 385 milljónir (157%)! Skýra markaðsaðstæður á Akureyri þennan mun?“ spyr Unnar.

Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingadeildar VMA, gerir greinina að umtalsefni á Facebook í dag. Hann segir að nú blasi við að skera þurfi mikið við nögl í innkaupum og aðföngum í byggingadeild. „Ekkert mál, kennarar byggingadeildar VMA redda því með því að einfalda verkefni nemenda og margnýta efnið, við sleppum því bara að læra að setja þök á húsin. Það verður a.m.k. betri loftun og minni mygla eða hvað?“ Hann bætir við að oft sé talað um aukinn stuðning við iðnnám en spyr hvar efndirnar séu. „Væri gaman að sjá hann annars staðar en bara í orði.“

Sigríður Huld skólameistari segir að aukin framlög til framhaldsskóla 2019 hafi í tilfelli Verkmenntaskólans á Akureyri alfarið runnið í hærri húsaleigu. Staðreyndin sé sú að ekkert sé eftir þegar leiga og laun hafi verið greidd. Skólann vanti að óbreyttu 40 milljónir á þessu ári og 60 á því næsta.

Hún segir að það yrði samfélaginu á Norðurlandi afar þungbært ef skólinn, sem er stærsti framhaldsskólinn á landsbyggðinni, gæti ekki starfað lengur. Atvinnulífið treysti á skólann og mikil eftirspurn sé eftir nemendum sem þar ljúki námi. „Skólinn er ekki rekstrarhæfur ef við fáum ekki hjálp við þetta.“ Hún segir skrýtið að setja menntastofnanir í þá stöðu að geta ekki haldið úti því námi sem þeim sé ætlað. Það sé líka í besta falli óheppilegt að þeir fjórir skólar sem minnsta fjáraukningu fengu 2019 séu allir á Norðurlandi. Hún ítrekar að sú hækkun hafi ekki geta nýst til að bæta aðbúnað í skólanum – hækkunin hafi öll farið í hærri húsaleigu, sem sé ákveðin einhliða af ríkinu.

Eins og aðrir skólar hefur Verkmenntaskólinn á Akureyri að sögn Sigríðar Huldar fundið fyrir aukinni eftirspurn í iðnnám. Skólinn hafi þurft að vísa nemendum frá vegna eftirspurnarinnar, þar á meðal í húsasmíði.

Sigríður segir að skólinn hafi átt í samtali við stjórnvöld vegna þeirrar erfiðu stöðu sem upp er komin. Hún segist þó vera „hóflega bjartsýn“ á lausn. Að óbreyttu geti skólinn ekki keypt efni inn á verklegar deildir eftir áramót. „Peningarnir eru ekki til.“