Fjölmenni tók þátt í 1. maí hátíðarhöldum

Mikið fjölmenni safnaðist saman í ágætis veðri á Akureyri í dag til að taka þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í tilefni af 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Einnig var góð mæting í kaffiveislu á skrifstofu stéttarfélaganna í Fjallabyggð. 

 

Kjörorð dagsins eru; „,,Sterkari saman.” Gengið var frá Alþýðuhúsinu gegnum miðbæinn að Ráðhústorgi og svo niður í Menningarhúsið HOF, þar sem fram fór hátíðardagskrá í tilefni dagsins. Heimir Kristinsson, varaformaður Byggiðnar, flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð og Guðný Helga Grímsdóttir, húsasmiður og formaður Félags fagkvenna, flutti aðalræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði, þar sem Birkir Blær og Vandræðaskáld fóru á kostum. Að dagskrá lokinni var boðið upp á glæsilegt kaffihlaðaborð í Menningarhúsinu HOFI. 

Heimir sagði m.a. í ávarpinu að „það skal engum detta í hug að við séum hætt að berjast fyrir betra og réttlátara þjóðfélagi því við „stöndum saman“.  Við þurfum að berjast á móti þeirri sjálftöku launa sem nú hefur viðgengist á æðstu stöðum og þeirri stéttarskiptingu sem nú er að byggjast upp.  Það vekur ugg í brjósti og reiði almennings hvernig menn geta gengið fram í nafni kapítalisma og skammtað sér það sem þeir vilja.“ Ávarpið í heild má lesa hér fyrir neðan. 

Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð 2018 

Ágætu félagar! Til hamingju með daginn!

Kjörorð dagsins er,  Sterkari saman! 

Í dag 1. maí á hátíðs- og baráttudegi verkalýðshreyfingarinnar komum við saman til að líta yfir farinn veg. Hverju hefur barátta undanfarinna ára skilað okkur? Við komum líka saman til að horfa fram á veginn, til að velta fyrir okkur hver næstu verkefni okkar verða. 

Fjölmörg þeirra réttinda sem vinnandi fólki þykja sjálfsögð í dag þurfti mikla baráttu og oft fórnir til að fá samþykkt. Það á við um samningsrétt, uppsagnarfrest, veikindarétt, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt, lífeyrissjóði, launajafnrétti, 40 stunda vinnuviku og margt fleira. 

Þetta eru allt réttindi sem ekki er sjálfgefið að vari til frambúðar, ef við stöndum ekki saman. 

Það skal engum detta í hug að við séum hætt að berjast fyrir betra og réttlátara þjóðfélagi því við „stöndum saman“.  Við þurfum að berjast á móti þeirri sjálftöku launa sem nú hefur viðgengist á æðstu stöðum og þeirri stéttarskiptingu sem nú er að byggjast upp.  Það vekur ugg í brjósti og reiði almennings hvernig menn geta gengið fram í nafni kapítalisma og skammtað sér það sem þeir vilja. 

Síðustu ár hafa launþegar gert samninga þar sem meginþorri launamanna hefur fengið sambærilegar launahækkanir, en nú er staðan þannig að samningar á almenna markaðnum eru lausir um næstu áramót og fjölmargir eru með lausa samninga nú þegar.  Frá áramótum hefur verið lokið við yfir tuttugu samninga sem flestir hafa það sammerkt að eru stuttir og ná einungis nokkra mánuði fram yfir áramót.  Það liggur því mikið við að vanda vel til verka við samningagerð á næstu misserum svo að svokallað höfrungahlaup taki sig ekki upp eina ferðina enn. 

Kaupmáttur hefur að jafnaði aukist undanfarið en hann hefur skilað sér misvel til ólíkra hópa, þar hafa aldraðir og öryrkjar látið mest í sér heyra og er það ekki að ósekju.  Skoða þarf sérstaklega skerðingar lífeyris og svo samspil lífeyris og greiðslna frá lífeyrissjóðum gagnvart þessum hópum svo þeir geti lifað með reisn í þessu samfélagi.  Einnig þarf að fara yfir skattpíningu lægstu launa, skattpíningu sem leitt hefur til minni kaupmáttar lægstu launa. 

Mikil óvissa er framundan í kjaramálum nú þegar stéttarfélög um allt land eru að undirbúa kröfugerðir fyrir næstu samningalotu. Ég hvet alla að taka virkan þátt í mótun kröfugerða í sínu stéttarfélagi því við erum sterkari saman. Við eigum að hafa skoðun á því hvað stéttarfélagið okkar er að gera. En við skulum vera minnug þess að alltaf þegar verkalýðshreyfingin er ásökuð um óbilgjarnar kaupkröfur er launafólk eingöngu að gera kröfur um mannsæmandi laun fyrir dagvinnu. Einmitt þá er verkalýðshreyfingin að gera kröfu um betra og réttlátara samfélag.  Einmitt þá er verkalýðshreyfingin að gera kröfu um að þeir sem höllum fæti standa sé rétt hjálparhönd. 

Samvera foreldra og barna er besta forvörnin gegn erfiðleikum ungs fólks. Í ljósi vaxandi fíkniefnaneyslu, aukningu andlegra sjúkdóma og erfiðleika ungs fólks er nauðsynlegt að búa betur að fjölskyldulífi. Það verður best gert með því að gera fjölskyldum kleift að lifa mannsæmandi lífi af dagvinnutekjum.  Fjölskyldan er sterkari saman. 

Samtök launafólks ganga nú fram undir kjörorðinu: “Sterkari saman.” Á síðustu árum og áratugum hefur samstaða launafólks skilað verulegum árangri við uppbyggingu velferðarþjóðfélagsins. Þeirri baráttu lýkur aldrei.  Það eru margir sem vilja brjóta niður það sem við höfum áorkað.  Þess vegna er mikilvægt að launafólk standi vörð og snúi bökum saman í sameiginlegum hagsmunamálum. 

Félagar! Stöndum saman og sækjum fram. Við erum “Sterkari saman.”

 

Ávarp Guðnýar Helgu Grímsdóttur, húsasmiðs og formanns Félags fagkvenna.

Kæru gestir – til hamingju með daginn

Ég heiti Guðný Helga Grímsdóttir og er sveinn í húsgagnasmíði.

          Þegar ég byrjaði í náminu sýndi fólk því mikinn áhuga að ég væri smiður, spurði mig hvernig ég endaði á að fara í þetta nám, hvernig væri og svo framvegis. Það sem vakti mest athygli mína var hvað það voru margar konur sem sögðust alltaf hafa haft áhuga á einhverri iðngrein en ekki valið þann starfsvettvang því að þær kunnu ekkert í greininni eða töldu að maður þyrfti að vera einhver viss týpa til að geta verið í þessum starfsvettvangi. Það var vegna þessa athugasemda sem ég ákvað að koma saman konum í karllægum iðngreinum, því saman gætum við verið sýnilegri, sýnt að iðngreinar eru fyrir alla og hvað iðngreinar eru ótrúlega fjölbreyttur, góður og skemmtilegur starfsvettvangur.

Þessi hugmynd mín gekk svo vel að stofnað var Félag Fagkvenna í byrjun árs 2017. Í dag eru 35 konur skráðar, þar er að finna rafvirkja, rafeindavirkja, húsa- og húsgagnasmiði, pípara, múrara og skrúðgarðyrkjufræðing.

Félagið er ætlað öllum konum sem hafa lokið sveinsprófi, eru á námssamningi eða í námi í karllægri iðngrein og hafa áhuga á að kynnast öðrum konum með samskonar eða svipaða menntun. Félagið er líka góður grundvöllur fyrir þær sem hafa  áhuga og vilja til að taka þátt í að fjölga menntuðu fólki í iðngreinum. Sér í lagi hvetja konur til að sækja um í þeim iðngreinum sem teljast karllægar, því hlutfall kvenna er lágt í þessum greinum og í sumum greinum eru engar konur. Til að mynda eru

7236 karlmenn sem hafa lokið sveinsprófi í húsasmíði en einungis 39 konur. Í húsgagnasmíði eru 652 karlmenn en 43 konur

Það segir okkur að af öllum sveinum í húsasmíði eru konur einungis 0,5 % af heildarfjöldanum og í húsgagnasmíði eru konur 6 % af heildarfjöldanum.

Í rafvirkjun eru konur undir 1 % af þeim sem hafa útskrifast eða 40 af 4026 manns.

4 konur hafa klárað sveinspróf í pípulögnum

Í bifvélavirkjun hafa 15 konur af 2258 klárað sveinspróf             

 

Heildarfjöldi þeirra sem lokið hafa sveinsprófi í löggildri iðngrein á Íslandi eru 37.792, þar af eru konur 5.151, eða 16% af allri heildinni

Þar sem það er vöntun á iðnmenntuðu fólki í atvinnulífinu er fráleitt að konur virðast ekki íhuga þann möguleika að gera iðngreinar að sínum starfsvettvangi. Félag fagkvenna hefur verið mjög öflugt í að taka þátt í allskonar viðburðum og vera sýnilegar fyrir ungmenni sem eru að skoða framhaldsnám og þau sem eru í iðngreinum. Félag fagkvenna hefur meðal annars haldið fyrirlestur um iðngreinar fyrir krakka í iðnum og tækni á vegum Orkuveitunnar.

Verið með fyrirlestur fyrir stjórnendur Orkuveitunnar um upplifun kvenna í iðngreinum.

Verið með bás á Íslandsmóti iðn- og verkgreina þar sem hægt var að koma og ræða við okkur um námið og starfið, einnig á  tæknidegi fjölskyldunnar á Neskaupsstað, framadögum hjá Háskóla Reykjavíkur og fleiri viðburðum.

Að hausti stefnum við á stórt og flott verkefni. Í samvinnu við Samtök iðnaðarins ætla fagkonur að fara í grunnskóla í Reykjavík, mæta í vinnufötunum okkar og segja frá hvað við erum að gera í vinnunni og af hverju við völdum það starf sem við erum í. Með þessu verkefni, bara með því að mæta í vinnufötunum, erum við að brjóta niður staðalímyndir um að iðnaðarmaðurinn sé einungis karlkyns. Auk þess erum við að kynna iðngreinar, möguleika þeirra og ávinning þess að kjósa sér það starf.

Þetta er bara byrjunin, það þarf að fara í stærri aðgerðir til að fjölga fagmenntuðu fólki, því í nágrannaþjóðum okkar eru 40% framhaldsskólanema í iðnnámi en á Íslandi eru það einungis 12-14%

Maður veltir þá fyrir sér, af hverju? Hvað er það sem veldur því að ungmenni hér á landi eru ekki að fara í iðnnám?

Í þessu samhengi langar mig að benda á að brottfall íslenskra framhaldskólanema er hátt, ætli þetta tengist? Ætli það myndi minnka ef fleiri færu í iðn – og verkgreinar sem höfða betur til áhugarsviðs þeirra?

Þessar tölur og vangaveltur eru ekki nýjar af nálinni, og finnst mér til skammar að stjórnvöld í landinu hafi ekki staðið sig betur í að skoða og bæta þessar tölur.

          Sjálf fór ég í menntaskóla eftir grunnskólann. Kláraði hann 8 árum síðar, af þessum 8 árum var ég eitt ár frá námi. Ég sagði það aldrei upphátt en mig langaði samt að fara í húsgagnasmíði, en ég varð að sanna mig fyrir öllum (kannski bara sjálfi mér) að ég væri klárari en það. Ég var búin að læra það að þeir sem fara í iðnskólann eru ekki klárir, þar voru bara nemendur sem komust ekki inn í neina aðra framhaldsskóla. Eftir stúdentspróf fór ég í háskólann, hoppaði á milli deilda því ég vissi ekkert hvað ég vildi. Ég endaði í uppeldis- og menntunarfræði og þegar ég var hálfnuð með námið ákvað ég að fara í húsgagnasmíði, með því skilyrði að klára BA gráðuna líka, svo ég útskrifaðist úr báðum skólunum vorið 2015.

          Ég skammast mín fyrir að hafa haft þetta viðhorf til iðngreina, ég lærði þetta ekki af foreldum mínum eða fólki nálægt mér, heldur í skólakerfinu og samfélaginu í heild sinni. Við í Félag fagkvenna teljum mikilvægt að taka á röngum hugsunum sem þessum með því að vera sýnilegar, sýna flókna hluti sem við erum að gera og vera til staðar fyrir ungt fólk sem er að velta fyrir sér hvað það vill læra og verða í framtíðinni.

Vegna starfsins míns hjá Fagkonum og úr vinnuumhverfi mínu hef ég fengið að heyra hvernig ungt fólk í hinum ýmsu iðngreinum eru að upplifa starfsvettvang sinn, hvað það er sem við þurfum virkilega að laga til að fá fólk í störfin og enn mikilvægara að halda þeim í störfunum.

Það sem brennur mest á er að mikil óvissa er hjá ungu fólki um hvaða laun fólk er að fá eða hvaða laun þau ættu að biðja um.  Grunnlaunin eru lág, en ungt fólk er að taka þeim, vinna svo öll kvöld og helgar svo þau nái endum saman þar til þau hreinlega brenna út í starfi. Mikil launaóvissa og mikið ósamræmi í launum milli vinnustaða og jafnvel milli starfsmanna innan sama vinnustaðar veldur miklu óöryggi og jafnvel vanlíðan í starfi.

Vinnuaðstaðan er einnig mikilvæg bæði að aðstaðan sé til fyrirmyndar og vinnuandinn sé góður.

          Ungt fólk hugsar vel um líkamann sinn, við gerum okkur grein fyrir að við eigum bara einn. Því gerum við kröfu að öryggistæki og öryggisþættir séu viðunandi á vinnustöðum.

Þó vinnuumhverfi geti verið skítugt eigum við að hafa snyrtilegan stað þar sem hægt er að borða og að salernis aðstaða sé til staðar, fyrir bæði kynin!

Vinnuandinn er ekki síður mikilvægur, góður andi á vinnustað þar sem allir eru jafningjar og hjálpsamir er staður sem flestir, ef ekki allir myndu kjósa að vinna á. Við verjum stórum hluta lífs okkar í vinnunni og því er mikilvægt að líða þar vel.  Í mínum huga eru iðnaðarmenn klárasta fólkið. Smíðin er það erfiðasta sem ég hef tekið að mér í lífinu, en umfram allt það skemmtilegasta! Starfið er svo ótrúlega fjölbreytt og til að vera góður þarf maður að vera skarpur í huganum og með líkamann í lagi, því það krefst mikillar þekkingar, nákvæmni, einbeitingu, skipulags og handlagni að vera góður iðnaðarmaður.

Við erum sérfræðingarnir, án okkar, okkar þekkingu og færni færi samfélagið á hliðina.

Takk fyrir og vona þið njótið dagsins