Félag málmiðnaðarmanna Akureyri styrki Gráa Herinn í málsókn gegn ólögmætum skerðingum.

Félag málmiðnaðarmanna Akureyri styrki Gráa Herinn í málsókn gegn ólögmætum skerðingum. Á aðalfundi félagsins sem haldinn var 21. febrúar 2019 samþykkti fundurinn tillögu stjórnar að styðja með fjárframlagi til Gráa Hersins ef þeir færu og létu reyna á ólögmæti skerðinga  á lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins til eftirlaunafólks. Nú hefur það orðið að veruleika og mun málsókn Gráa hersins verða þingfest 23. janúar n.k.

Stjórn Félags málmiðnðarmanna Akureyri hefur lengi verið á þeirri skoðun á reyna þurfi á lögmæti þessara skerðing og teljum við hjá stjórn félagsins að mismunun í núverandi kerfi styðji við þá skoðun. Það er alveg skýrt hjá stjórn félagsins að við munum fylgjast grannt með þessari málssókn og hvetur ríkisstjórn Íslands til að bregðast rétt við. Það hefur oft verið bent á þau rangindi sem lífeyrisþegar eiga við að etja og kerfið mismuni á ýmsan hátt okkar félagsmönnum. Hér verður ekki bent á augljósar staðreyndir um þann mismun þar sem að málsókn er í undirbúningi og ráðamenn í þessari þjóð geta brugðist við með að færa hlutina í rétt horf, því hefur verið lofað í kosningaloforðum ýmissra flokka og næstu kosningar munu snúast um þetta mál hafi það ekki farið í gegn eða verið lokið á mannsæmandi hátt. 

Félag málmiðnaðarmanna Akureyri hvetur önnur stéttarfélög til að styðja við þessa málssókn til að fá niðurstöðu, þetta er launakrafa okkar félagsmanna hvort sem þeir eru komnir á eftirlaun núna eða fara á lífeyrir síðar og er launaskerðing miðað við núverandi forsendur og síðari breytinga á kerfinu. 

Finnur Birgisson einn forsvarsmanna Gráa hersins segir eftirfarandi á fundi hjá fulltrúaráði Birtu Lífeyrissjóðs.

Stofnaður hefur verið sérstakur málsóknarsjóður til að vera fjárhagslegur bakhjarl málaferlanna. Stofnendur eru 33 félög eldri borgara í öllum landshlutum og fyrirliggjandi eru loforð frá verkalýðsfélögum um að leggja 2,8 milljónir króna í sjóðinn.

 Betur má ef duga skal því ætla má að málskostnaður hlaupi á tugum milljóna króna. Verkalýðshreyfingin lofar frekari stuðningi og gert er ráð fyrir söfnunarátaki þegar fram líða stundir og þörf krefur.

 Finnur nefndi ýmis rök fyrir málatilbúnaði Gráa hersins og bar sömuleiðis íslenska lífeyriskerfið saman við erlend eftirlaunakerfi:

  • Skerðing lífeyris almannatrygginga er í mótsögn við forsendur lífeyrissjóða þegar þeir voru stofnaðir á sínum tíma. Þá var litið svo á að lífeyrir úr sjóðunum yrði viðbót við lífeyri almannatrygginga.
  • Skerðing almannatrygginga jafngildir jaðarskattheimtu upp á 65-84% og þar með eignaupptöku.
  • Íslenska kerfið byggist á stærri hluta söfnunar í lífeyrissjóði en gerist annars staðar. Lífeyrir frá ríkinu vegur minna.
  • Útgjöld íslenska ríkisins vegna lífeyris aldraðra eru miklu minni en gerist annars staðar á Norðurlöndum.
  • Tekjutengingar í opinbera kerfinu á Íslandi eru miklu meiri en þekkjast annars staðar.

Nánari upplýsingar um málið er á facebook síðu Gráa Hersins.

Með félagskveðju 

Stjórn Félags málmiðnaðarmanna Akureyri