Ávarp Drífu Snædal, forseta ASÍ, á Akureyri í dag

Fyrr í dag fór fram hátíðardagskrá í Menningarhúsinu HOFi á Akureyri en þar flutti Drífa Snædal, forseti ASÍ, aðalræðu dagsins.

Kæru félagar, til hamingju með baráttudaginn okkar!

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér á hinu fagra Norðurlandi þar sem verkalýðsbarátta hefur alltaf þrifist vel og verið öðrum innblástur. Ekki einungis hefur Norðurlandi gefið af sér mikla snillinga í verkalýðsmálum heldur höfum við héðan innsýn inn í líf verkafólks í gegnum bókmenntir og menningu.

Sú mynd sem Elka Björnsdóttir dregur upp í dagbók sinni af lífsbaráttunni á Hjalteyri í upphafi síðustu aldar og þær sögur sem Tryggvi Emilsson segir í bókum sínum Fátækt fólk og Baráttan um brauðið um stéttarstríðið hér á Akureyri eru okkur innblástur enn þann daginn í dag. Við vitum hverju við höfum áorkað í eina öld og ekki síst hverju við höfum að tapa.

Við getum verið ákaflega stolt af sigrum okkar í gegnum tíðina, stolt af því fólki sem hefur lagt baráttunni lið og þeirri vissu að öflug verkalýðshreyfing sé beinlínis lífsnauðsynleg. Svo var ekki á upphafsdögum hreyfingarinnar eins og greint er frá í sögu Einingar-Iðju sem var gefin út í fyrra. Þeir sem fyrstir létu að sér kveða í verkalýðsmálum hér um slóðir þóttu skrýtnir og voru uppnefndir og fyrstu skrefin voru sannanlega þung og kostaði miklar fórnir. Það er ágætt að minna sig á að þeir sem eru upphafsmenn í baráttunni njóta ekki alltaf sannmælis meðal samferðarmannanna. 

Sú klikkaða og róttæka hugmynd að vinnandi fólk ætti að skipa sér í félög og nýta afl samstöðunnar til að ná betri kjörum hefur verið undirstaða aukinnar lífsgæða. Á upphafsdögum hreyfingarinnar hefur fólk örugglega mátt heyra að atvinnulífið þyldi ekki launahækkanir, jafnvægi væri ógnað, baráttan myndi leiða til verra lífs og þar fram eftir götunum. Við þekkjum þessi viðbrögð allt of vel, þau eru enn notuð. En alveg eins og viðbrögðin eru fyrirsjáanleg eru kröfur okkar líka fyrirsjáanlegar. Það er enn jafn satt í dag og það var fyrir heilli öld að eina leið fólks til að sækja fram um bætt lífskjör er að standa saman. Enn þann dag í dag berjumst við fyrir góðu húsnæði á viðráðanlegu verði. Enn þann dag í dag viljum við að fólk sem hefur góðar tekjur leggi meira til samfélagsins og enn í dag berjumst við gegn brotum á vinnumarkaði og að fólk fari heilt til vinnu og komi heilt heim.

En nútíminn hefur líka fært okkur alls konar aðrar skemmtilegar áskoranir. Líf okkar nú á dögum er töluvert flóknara en það var áður fyrr. Við erum í samskiptum við miklu fleiri einstaklinga dags daglega og fáum meiri upplýsingar en við höfum nokkurn möguleika að vinna úr. Og við erum alþjóðlegri. Fólk af ólíkum uppruna þekkist betur eða hefur allavega alla möguleika á að kynnast. Við ættum því samkvæmt öllu að vera víðsýnni og vita sem er að alls staðar í heiminum er fólk eins, það vill geta unnið fyrir sér, höndlað hamingjuna og lifað í friði.

Því miður þrífst samt líka tortryggni gagnvart því sem við höldum að sé öðruvísi og það sem verra er, ýmsir hafa hag af því að ala á tortryggni. Á meðan við óttumst dökka, fúlskeggjaða útlendinginn í næsta húsi horfum við framhjá því að hann er samherji okkar. Hann hefur sömu hagsmuni og við af því að hækka laun, bæta húsnæðismarkaðinn og jafna kjörin og það sem meira er, hann hefur sama tilkall til áhrifa í verkalýðshreyfingunni og aðrir. Sýrlenskur vinur minn er einmitt þessi fúlskeggjaði maður, ein yndislegasta manneskja sem ég hef kynnst. Maður sem stóð sem sjálfboðaliði í flæðarmálinu á Lesbos og bjargaði litlum börnum frá drukknun. Hann hikaði samt við að bera sjónvarpstæki á milli íbúða í flutningum seint um kvöld á Laugarveginum því það gæti vakið tortryggni og hann nennti ekki að útskýra málið fyrir lögreglunni. Hann hefur verið hvattur til að láta svarta fallega skeggið víkja því hann líti út eins og hryðjuverkamaður. Við skulum endilega ekki hafa samfélagið okkar svona.

Við skulum hins vegar viðurkenna sameiginlega hagsmuni vinnandi fólks, sama hvaðan úr heiminum það kemur og við skulum vanda okkur hvaða upplýsingar verið er að bera á borð fyrir okkur sífellt og stöðugt. Ein helsta ógn sem við stöndum frammi fyrir í dag eru áhrif peninga. Heimurinn er þrisvar sinnum ríkari í dag en hann var fyrir tuttugu árum en þessi margföldun auðæfa hafa sannanlega ekki skilað sér í vasa vinnandi fólks. Þvert á móti hafa þeir ratað í vasa ótrúlega fárra einstaklinga sem hafa svo getað breytt leikreglum samfélagsins til að verða enn ríkari. Leikreglum um skattgreiðslur, skattaskjól, fjármögnun auglýsinga, fjármögnun stjórnmálamanna, áhrif peninga í menntastofnunum o.s.frv.

Þessi öfl svífast einskis í leit að næsta gróðamöguleika og því miður hefur það gerst að auðlindir og velferðarkerfi sem áður voru í samfélagslegri eigu eru nú orðnar gróðamaskínur fyrir hina fáu ríku. Það er því ekki að undra að barátta alþjóða verkalýðshreyfingarinnar snýst í auknum mæli um velferð, skatta og auðlindir. Að verja okkar sameiginlegu eignir fyrir ásælni gróðaafla og tryggja að ákvarðanir séu teknar út frá hagsmunum heildarinnar en ekki fárra. Þessi barátta á sér stað um allan heim og hér á landi líka. Við verðum alltaf að vera á verði því leiðirnar til að koma verðmætum undan sameiginlegum sjóðum eru ótal margar.

Ein sterkasta leið sundrungar í dag er að strá efasemdum um lýðræðið. Það er mikilvægara en nokkurntíman að við verndum lýðræðið okkar. Við getum verið með efasemdir um menn og málefni og eigum svo sannarlega að láta þær í ljós, hvort sem það er við kjörna fulltrúa í verkalýðshreyfingunni eða í landsmálunum. En við skulum endilega vernda lýðræðið sem skipulag því betra skipulag höfum við ekki til að byggja á. Það er hið eilífa verkefni hreyfingarinnar að vanda sig lýðræðislega og hvetja sem flesta til þátttöku. Þar mætti verkalýðshreyfingin víða um land taka ykkur Norðanmenn sér til fyrirmyndar því ég veit að hér er rekið öflugt félagsstarf af þeim stéttarfélögum sem hér hafa aðsetur. Það er ekki nóg að mæta á fundi rétt fyrir samninga, eða rétt á eftir til að fá kynningu heldur er starf hreyfingarinnar stöðugt og mikilvægt hvort sem kjaraviðræður eiga sér stað eða ekki.

Við þurfum á öllu okkar að halda að veita stjórnvöldum aðhald og tryggja að staðið sé við fyrirheit sem gefin voru fyrir réttum mánuði síðan. Húsnæðismál, skattamál, félagsleg undirboð, vextir og verðtrygging. Þetta eru engir smá málaflokkar og snerta okkar daglega líf mikið. Kannski ertu ung manneskja að kaupa þína fyrstu íbúð eða miðaldra manneskja sem þráir að börnin þín komist að heiman eða amma sem hefur áhyggjur af húsnæðisöryggi barnabarnsins. Kannski ertu verkamaður frá Póllandi í viðkvæmri stöðu á íslenskum vinnumarkaði eða smiður á Íslandi sem hefur áhyggjur af lækkandi launum í stéttinni vegna félagslegra undirboða. Kannski ertu láglaunamanneskja eða öryrki sem þarft lægri skatta eða jafnvel hálaunamanneskja sem veist að í gegnum skatta er greitt fyrir almenna menntun og heilbrigðisþjónustu og því greiðirðu skattana með bros á vör. Réttlæti, jafnrétti og jöfnuður skipta okkur öll máli í stóra samhenginu og það býr til betra samfélag ..... yfirlýsing stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga er skref í þá átt.

Verkalýðshreyfingin er sprelllifandi um þessar mundir, allir hafa skoðanir á kjara- og verkalýðsmálum og blöðin fylla heilu dálkana af greiningum, umræðum og fréttum um kjaramál. Þannig á það líka að vera. Við eigum að vera öflug grasrótarhreyfing sem er ekkert óviðkomandi sem snertir daglegt líf og lífsgæði fólks. Launafólk á Íslandi veit að það á bakhjarl í félaginu sínu og það er mín ósk að sem flestir taki þátt og raddir hreyfingarinnar heyrist sem víðast. Sækjum fram; einbeitt, baráttuglöð og samheldin! Krefjumst jöfnuðar og samfélags þar sem allir fá að blómstra. Til hamingju með daginn.