Ályktun um menntamál

sveinsbréfaafhending 2017
sveinsbréfaafhending 2017

Félag málmiðnaðarmanna Akureyri tekur undir ályktun Rafiðnaðarsambandsins um eflingu iðnnáms á Íslandi og skorar einnig  á Alþingi að beita sér fyrir  skoðun á iðnlöggjöfinni ásamt því að veita meira fé til tækni og verknámsskólanna og að beita sér almennt fyrir því að efla iðn- og tækninám á komandi árum. Það hefur yfirleitt ekki skort vilja til þess að tala um nauðsyn þess að fjölga þurfi nemendum í iðn- og tækninámi. Þegar á hólminn er komið hefur hingað til skort allverulega á vilja til framkvæmda.

  • Tryggja þarf bætt aðgengi að náminu. 
  • Auka þarf fjármagn til skólanna sem eyrnamerkt er kennslu iðnnáms enda er námið dýrara í rekstri en hefðbundið bóknám. Iðn- og tækninám skilar almennt meiri framlegð en annað nám.
  • Tryggja þarf sjálfstæði við skipulag námsins að því leyti að lengd náms þarf ekki að fylgja öðru námi heldur þarf að taka mið af því efni sem nauðsynlegt er að kenna. 
  • Koma þarf í veg fyrir að fjöldatakmarkanir í kennslu taki mið af hefðbundnu bóknámi því kennsla í verklegu námi krefst þess oft á tíðum að fjöldi nemenda í hverjum hópi sé minni.
  • Að auki þarfa að gera eftirfarandi.
  • Klára þarf vinnuna við að meta iðnnám inn á háskólastig sem það er nú þegar á 4.stigi þess náms sem og meistaranámið og opna flæði á milli verknáms og háskóla með skoðun á viðbótum í iðnnámi.

Það dylst engum að á komandi árum mun samkeppnishæfni Íslands takmarkast af því hversu öflugan grunn vinnandi iðnaðarmanna við höfum til þess að vinna þau verkefni sem framundan eru. Fjórða iðnbyltingin krefst fleiri starfsmanna með iðn og tæknimenntun. Við megum ekki sofa á verðinum og nú er kominn tími til aðgerða af hálfu stjórnvalda í þessum málaflokki.

Iðnnám er fjölbreytt nám sem býður upp á marga möguleika til góðrar vinnu sem og áframhaldandi náms ef sá vilji er fyrir hendi. Iðnnám hefur þróast og býður upp á mikla tækni og þekkingu ásamt því að starfsmenn þurfa að vera lausnamiðandi út frá krefjandi verkefnum. Iðnnám er starf fyrir bæði kyn og hvetur Félag málmiðnaðarmanna Akureyri konur til að kynna sér námið enn frekar.