Ályktun 36. þings Alþýðusambands Norðurlands um skerðingar á lífeyri

Ályktun um lífeyrismál
36. þing Alþýðusambands Norðurlands krefst þess að samspil lífeyrissjóða launafólks og lífeyris almannatrygginga verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Liður í því gæti verið að hækka almenna frítekjumarkið. 

Núverandi fyrirkomulag almannatrygginga gengur allt of langt í að skerða greiðslur úr lífeyrissjóðum og afkoma margra eldri borgara er því enn óviðunandi þrátt fyrir áratuga söfnun lífeyrisréttinda. 

Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kveða á um að öllum beri að afla sér lífeyrisréttinda með því að greiða ákveðinn hluta launa í lífeyrissjóði. Þegar að lífeyristöku kemur, er sparnaður launafólks notaður til að skerða greiðslur almannatrygginga til lífeyrisþega um hátt í 45% af greiðslunni frá lífeyrissjóðum. Að teknu tilliti til skattgreiðslna, fær lífeyrisþegi með 100.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóðnum um 35% í sinn hlut. Fái viðkomandi 400.000 kr. á mánuði lækkar hlutfallið í 28%.1 Ávinningurinn af sparnaðinum, sem tryggja átti áhyggjulaust ævikvöld, rennur þess í stað að stærstum hluta í ríkissjóð. 

36. þing AN lítur svo á að núverandi fyrirkomulag sé komið í ógöngur og krefst þess að dregið verði stórlega úr skerðingum lífeyris almannatrygginga vegna útgreiðslna úr lífeyrissjóðum. Vegna þessa efast launafólk um gagnsemi þess að greiða verulegan hluta launa sinna i lífeyrissjóð til að tryggja framfærslu sína á efri árum. 

Þingið telur brýnt að launafólk njóti ávöxtunar af sparnaði sínum í samræmi við upphafleg markmið lífeyrissjóðakerfisins. 

Skerðingarhlutföll eru fengin með því að bera saman tölur frá reiknivél TR. Miðað er við einstakling sem býr einn.