Afhending á 25 leiguíbúðum Bjargs íbúðafélags

Jóhann formaður ásamt Guðrúnu Kristjánsdóttur, starfsmanni á leigusviði Bjargs og Sigurði Halldóri Ö…
Jóhann formaður ásamt Guðrúnu Kristjánsdóttur, starfsmanni á leigusviði Bjargs og Sigurði Halldóri Örnólfssyni, sérfræðingi á framkvæmdarsviði Bjargs og öðrum formönnum.

Bjarg íbúðafélag afhenti í dag 25 íbúðir í Gudmannshaga 2 á Akureyri,  áður var búið að afhenda 4 íbúðir en í heildina verða þær 31.  Formönnum stéttarfélaganna var boðið að skoða þessar íbúðir fyrir afhendingu og er það álit okkar að í boði eru flottar íbúðir fyrir félagsmenn okkar á hagstæðum kjörum.  
Má þar nefna að leiga á þriggja herbergja íbúðum er frá 139.000 kr. á mánuði til 149.000 kr. en við þetta bætist hússjóður, hiti og rafmagn, síðan koma húsaleigubætur til frádráttar.

Við hvetjum Bjarg íbúðafélag til að halda áfram uppbyggingu á félagssvæði okkar, en Akureyrarbær og Bjarg eru með samkomulag upp á 70 íbúðir.

Byggingin er fjöleignarhús og er að litlum hluta tveggja hæða með stigahúsi en aðallega er um að ræða þriggja hæða byggingu með lyftu og stigahúsi.  Arkitektar eru Tendra arkitektar og verkfræðingar eru AVH á Akureyri, verktakinn Lækjarsel sá um framkvæmdina. Bjarg er húsnæðis og sjálfseignarstofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.