Finnbjörn Hermannsson var endurkjörinn forseti ASÍ án mótframboðs. Þingið var vel heppnað að mati formanns FMA og fyrsti dagurinn opinn öllum og góðir fyrirlesarar þar. Könnun sem ASÍ gerði á meðal félagsmanna sinna sýnir eindregið að meirihluti félagsmanna er andvígur einkavæðingu á heilbrigðiskerfinu og að 60% félagsmanna telja að skipting auðlinda sé ranglát. Einungis 3% eru hlynnt orkuframleiðslu einkafyrirtækja.
Þrjár öflugar málefnahópar störfuðu á þinginu. Þeir hétu Þjónusta í þágu almennings, auðlindir í þágu þjóðar og samkeppni í þágu samfélags. Þessir hópar mörkuðu stefnu ASÍ í þessum málaflokkum en hana má lesa með því að smella á asi.is. Málefnavinnan á þinginu þótti afar vel heppnuð og mikill kraftur var í þingstörfum.
Þingið samþykkti fimm ályktanir. Ein var um stofnun framtíðarnefndar ASÍ en nefndin skal meðal annars fjalla um áskoranir og tækifæri vinnandi fólks í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar, lýðfræðilegar breytingar, sjálfvirknivæðingu og nýtingu gervigreindar.
Önnur ályktun var samþykkt um aðgerðir gegn einbeittri og síaukinni brotastarfsemi á vinnumarkaði.
Þingið ályktaði líka um húsnæðismál en þar segir að brýnt sé að stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, standi við gefin loforð í húsnæðismálum og hefji hér stórfellda og tafarlausa uppbyggingu, svo eitthvað sé nefnt.
Ályktun var einnig samþykkt um ráðstöfun séreignasparnaðar til greiðslu íbúðarhúsnæðis.
Loks samþykkti þingið ályktun um vaxtaokur og verðtryggingu.