Til hamingju með 80 ára afmælisdaginn kæru félagsmenn

Í dag 23.febrúar á Félag málmiðnaðarmanna Akureyri 80 ára afmæli, á sunnudeginum 23. febrúar árið 1941 komu járniðnaðarmenn saman til þess að stofna formlega Sveinafélag járniðnaðarmanna á Akureyri. Fyrsta stjórnin var kosin, lögð voru fram drög að lögum félagsins og einnig kjarasamningur sem samninganefndin hafði gert við vinnuveitendur. Önnur grein laganna var svohljóðandi: „Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að sameina alla starfandi járniðnaðarmenn á Akureyri innan sinna vébanda, er með öflugu samstarfi berjist fyrir því sem verða má til hagsbóta, svo sem aukinni þekkingu á iðninni, hækkun kaupgjalds, styttingu vinnutíma, auknum réttindum og bættum vinnuskilyrðum.

Í dag eiga þessi sömu gildi við þó margt hafi breyst frá forvera okkar sem og nafnið á félaginu. Til stóð að halda aðalfund félagsins á þessum degi en vegna aðstæðna varð að fresta því og enn hefur ekki verið ákeðið hvenær eða hvernig aðalfundurinn fari fram en  það skýrist á breyttum forsendum á næstu vikum. Þó segir í lögum félagsins að halda skuli hann fyrir lok mars og mun það standa þó að fundur í gegnum fjarfundarbúnað hugnist okkur lítt. Aðalfundurinn verður auglýstur hér á heimasíðunni sem og í þeim fjölmiðlum sem við á. Stjórn félagsins hefur þó tekið ákvörðun um að halda skuli síðan í haust þegar og ef hægt verður vegna samkomubanns afmælisfund félagsins með skemmtilegu ívafi og vonumst við til að geta haft aðalfundinn á næstunni á hefðbundin hátt.

Stjórn félagsins óskar félagsmönnum sínum til hamingju með daginn en félagið er ekkert án öflugs samstarfs þess við sína félagsmenn og teljum við hjá stjórn að svo sé. þó félagið sé lítið þá er hjarta þess sannarlega stórt.