Staða kjaraviðræðna

Í sl. viku hafa verið haldir fjölmargir samningafundir með viðsemjendum okkar hjá Samtökum atvinnulífsins. Sérkröfur iðnaðarmannafélaganna hafa verið ræddar sem er mikilvægt í þessu ferli. Dæmi um okkar kröfur er stytting vinnuvikunnar. Iðnaðarmenn vinna almennt mikla yfirvinnu. Þeir vilja skiljanlega draga úr heildarvinnutímanum. Iðnaðarmenn eiga að geta lifað mannsæmandi lífi á laununum án þess að þurfa að vinna dag og nótt við iðju sína. 
 
Það er augljóst að meta þarf menntun iðnaðarmanna til launa enda ein mikilvægasta stétt landsins. Þjóðfélagið þarf vel menntað og starfsglatt fólk við störf í iðngreinum. Ávinningur aukinnar menntunar þarf að skila sér í vasa iðnaðarmanna. 
 
Bæta þarf ákvæði kjarasamninga á ýmsum sviðum þannig að áherslur um fjölskyldulíf og eðlilegan frítíma nái fram að ganga. Mjög algengt er til að mynda að iðnaðarmenn standa bakvaktir. Mikilvægt er að það verði viðurkennt að bakvaktir skerða frímatíma og fjölskyldulíf.  
 
Það skiptir okkur miklu máli að fjölga þeim krónum sem sitja eftir í veskjum félagsmanna. Af þeim sökum er það ein meginkrafa okkar að unnið verði að auknum kaupmætti launa og að þeirri stefnu verði viðhaldið, að laun hækki nokkuð verulega umfram verðbólgu á komandi árum. Ráðstöfunartekjur verða að aukast. 
 
Iðnaðarmenn gera kröfu um að tekið verði á húsnæðiskerfi þjóðarinnar, bæði vegna fasteignakaupa og vegna húsaleigu. Ljóst er, að þó að algengara sé að iðnaðarmenn eigi fasteignir fremur en sumir aðrir hópar, þá kemur sú staðreynd engu að síður illa við iðnaðarmenn, að fjármögnun húsnæðis sé lang erfiðasti þátturinn við að eignast húsnæði. Gríðarlega hátt vaxtastig og verulega óréttlátt fyrirkomulag við húsnæðiskaup er veruleiki sem þarf að laga. 
 
Við getum ekki litið hjá því að fjármögnun fasteignakaupa á landsbyggðinni er ekki síður erfið. Þar eru fjármögnunarkostir oft æði fábrotnir. 
 
Lykilatriðið er að lækka vaxtagreiðslur hér á landi. Okurvextir sem almenningi standa til boða eru ekki ásættanlegir og þá skiptir ekki máli hvort um verðtryggð eða óverðtryggð lán er að ræða. Háir vextir gera afborganir nánast óyfirstíganlegar í mörgum tilvikum. Þetta þarf að laga.
 
Það sem ber hæst í almennu málunum eru húsnæðismálin og framlagning tillagna húsnæðishópsins sem forsætisráherra skipaði fyrir tveimur mánuðum. Margar þeirra tillagna sem starfshópurinn leggur til eru góðar og munu leiða til framfara ef þeim verður hrint í framkvæmd. Margar nefndir hafa á undangengnum árum skilað skýrslum um úrbætur í húsnæðismálum sem síðan hafa dagað uppi í hillum ráðuneytanna. Við vonum öll að það verði ekki raunin að þessu sinni, það væru svik við almenning.

Tillögurnar eru í 7 flokkum:
1 Almennar íbúðir - stækkun kerfisins með stofnframlögum og hærri tekjumörkum
2 Húsnæðisfélög - stuðningur við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög
3 Leiguvernd - skýrari reglur á leigumarkaði án þess að það bitni á framboði
4 Skipulags og byggingamál - endurskoðun regluverks til einföldunar og rafvæðing stjórnsýslu
5 Samgönguinnviðir - hraðari uppbygging samgönguinnviða og almenningssamgangna
6 Ríkislóðir - ráðstöfun ríkislóða fyrir íbúðir, þar á meðal fyrir leigumarkaðinn
7 Upplýsingamiðlun - samræmd söfnun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál.

Megin veikleiki tillagna starfshópsins er að þær eru ekki tillögur sem hægt er að ganga að og hrinda beint í framkvæmd. Margar gætu þurft nokkuð langan aðdraganda til að komast í framkvæmd t.d. framkvæmdir á ríkislóðum á Keldum eða uppbygging samgangna. Eitt er það sem hefur orðið banabiti margra góðra tillagna um úrbætur í húsnæðismálum er að þeim hefur ekki fylgt fjármagn. Framhjá þessu er skautað býsna létt í tillögugerðinni og er t.d. fjármögnuninni vísað til ASÍ og SA og er þar væntanlega verið visa til að fjármagnið eigi að koma úr lífeyrissjóðunum.

Rétt er að ítreka að það er margt gott í þessum tillögum og vonandi komast flestar til framkvæmda en margt bendir til þess að það kunni að reynast snúið að koma þeim í framkvæmd m.a. vegna þess að þær eru ekki fjármagnaðar. 
Margar þeirra tillagna sem starfshópurinn leggur til eru góðar og munu leiða til framfara ef þeim verður hrint í framkvæmd. Margar nefndir hafa á undangengnum árum skilað skýrslum um úrbætur í húsnæðismálum sem síðan hafa dagað uppi í hillum ráðuneytanna. Við vonum öll að það verði ekki raunin að þessu sinni, það væru svik við almenning, hættum að tala og skrifa skýrslur því þær búa ekki til húsnæði.

Hugmyndir ASÍ félaganna í skattamálum litu einnig dagsins ljós í sl. viku. Megin stefið í þeim er fjögurra þrepa skattkerfi þar sem lægstu laun beri minnstan skatt, millitekjur lækki einnig eða standi í stað en tekjur ríkissjóðs verði sóttar frekar til hálaunafólks; til fjármagnstekna og þeirra sem nýta auðlindir landsins eða í svarta hagkerfið. Markmið þessara tillagna er að auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Það verður hlutverk ASÍ í þessum kjaraviðræðum að fylgja þessum tillögum eftir við stjórnvöld.
 
Fundir með SA halda áfram næstu daga og verður reynt til þrautar að sjá til lands. Hvort það tekst veltur mest  á því hvort fulltrúar SA sýni almennilega á spilin og verði við sanngjörnum kröfum okkar iðnaðarmanna.