Miðstjórnarfundur Samiðnar

Miðstjórnarfundur Samiðnar

Samiðn hélt miðstjórnarfund sl. föstudag. Þar var m.a. farið yfir helstu áherslur í starfi Samiðnar um þessar mundir. Á fundinn kom góður gestur, Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri Íslands, þar sem hún fór m.a. yfir helstu ákvarðanir Seðlabanka Íslands og tók við fyrirspurnum frá miðstjórnarmönnum Samiðnar. Þar var einnig samþykkt eftirfarandi ályktun.

Ályktun frá Miðstjórn Samiðnar:

Samiðn gagnrýnir harðlega stöðu iðnnáms hér á landi. Staðan er orðin mjög alvarleg þegar 700 umsækjendur fá ekki inngöngu í iðnnám. 18 ára og eldri eiga nánast engan möguleika á að komast í iðnnám og er það algerlega óviðunandi.

Að sama skapi gerir Samiðn athugasemdir við þá vegferð sem stjórnvöld eru í varðandi löggildingu iðngreina. Þar styður ríkisstjórnin sig við skýrslu OECD varðandi afnám löggildingar í ákveðnum iðngreinum. Það vekur athygli að OECD horfði í skýrslu sinni eingöngu til iðngreina, en ekki annarra stétta sem búa við lögverndun. Enn og aftur er því verið að ráðast að iðngreinum.

Samiðn gagnrýnir einnig þann tvískinning sem er að eiga sér hjá stjórnvöldum, þ.e. menntamála- og menningarmálaráðherra talar um mikilvægi iðnnáms en á sama tíma er atvinnu- og nýsköpunarráðherra í þeirri vegferð að vega að löggildingu iðnaðarmanna. Það sýnir hversu ósamstíga stjórnvöld eru í þessum málaflokki.

Hér er einnig um brýnt neytendamál að ræða. Neytendur verða að geta gengið að því vísu að að þjónusta iðnaðarmanna uppfylli gæðakröfur. Mikilvægt er að tryggja að þeir sem starfi á þessu sviði séu hæfir til að sinna þeim störfum og hafi lokið viðeigandi námi sem viðurkennt er af yfirvöldum. Það gefur augaleið að afleiðingar af óviðunandi þekkingu og hæfni til að vinna þau störf geta verið mjög alvarlegar.